Sprotafyrirtækið Opus Futura ehf. hefur lokið sinni fyrstu fjármögnunarlotu að upphæð 70 milljónir króna. Að baki fjármögnuninni eru fjárfestarnir F. Bergsson ehf. í eigu Frosta Bergssonar og Omega VC, fjárfestingafélag Andra Sveinssonar og Birgis Más Ragnarssonar.

Opus Futura er íslenskt fyrirtæki sem hefur þróað lausn sem parar sjálfkrafa saman einstaklinga og störf á mun ítarlegri hátt en áður, auk þess að tryggja nafnleynd einstaklinga sem skrá sig í grunninn.

Fjármögnuninni er ætlað að styrkja þróun lausnar Opus Futura, auk sölu- og markaðsstarfs. Samhliða fjármögnuninni bætir Opus Futura við sig starfsfólki. Nú starfa fjórir starfsmenn hjá fyrirtækinu og stefnt er á að ráða þrjá til viðbótar á næstu vikum.

„Aðkoma þessara öflugu fjárfesta færir okkur mikinn byr í seglin og gerir okkur kleift að hlaupa hraðar. Við erum nýbúin að opna á notkun fyrstu útgáfu lausnarinnar og finnum mikinn áhuga frá einstaklingum og fyrirtækjum, enda eina lausn sinnar tegundar á Íslandi og þó víðar væri leitað,” segir Helga Jóhanna Oddsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Opus Futura.