Evrópski þróunar­bankinn (CEB) hefur sam­þykkt að veita Orku­veitu Reykja­víkur 75 milljóna evra lán.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu OR er lánið veitt til að byggja upp veitu­kerfi og efla við­nám þeirra gegn lofts­lags­vá og náttúru­ham­förum.

„Fjár­magnið, sem svarar til meira en 11 milljarða ís­lenskra króna, nýtist til upp­byggingar raf­veitna, hita­veitna og vatns­veitna. Mikil fjölgun íbúa á höfuð­borgar­svæðinu hefur kallað á upp­byggingu nýs hús­næðis sem tengist kerfum Veitna, dóttur­fyrir­tækis Orku­veitunnar,“ segir í Kaup­hallar­til­kynningu.

Sam­hliða því er unnið að öflun aukins forða fyrir hita­veituna og fjár­festa þarf í raf­veitunni til að mæta orku­skiptum.

Sam­kvæmt OR þurfa allar veiturnar að eflast vegna af­leiðinga lofts­lags­breytinga á borð við hækkandi sjávar­stöðu, aukna á­kefð úr­komu og ó­vissar breytingar í veður­fari.

OR segir að þróunarbankinn hafi tilkynnt um það sér­stak­lega við lán­veitinguna að veitu­þjónustan „sé á hag­stæðu verði og hafi því jöfnunar­á­hrif í sam­fé­laginu.“

„Orku­veitan er að vaxa og eflast. Veitur vinna eftir metnaðar­fullum á­ætlunum um eflingu veitu­kerfanna, sem eru grunn­stoð í sjálf­bærni okkar sam­fé­lags. Það er gott að Orku­veitan nýtur trausts til fjöl­breyttrar og hag­stæðrar fjár­mögnunar á þessum nauð­syn­legu verk­efnum. Ný­leg dæmi um upp­byggingu og eflingu veitu­kerfanna er lagning og tenging nýrrar Suðu­r­æðar fyrir hita­veituna á sunnan­verðu höfuð­borgar­svæðinu og bygging nýrrar að­veitu­stöðvar raf­veitu Veitna til að hægt sé meðal annars að hlaða skemmti­ferða­skip í Sunda­höfn,“ segir Sæ­var Freyr Þráins­son, for­stjóri Orku­veitunnar.