Orkuveita Reykjavíkur (OR) hagnaðist um 2 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 262 milljónar tap á sama tíma í fyrra. Hagnaður OR eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3.551 milljón samanborið við 4.649 milljónir á sama tímabili árið 2022. Félagið birti /í dag.

Velta Orkuveitunnar á þriðja ársfjórðungi jókst um 6,5%, úr 12,4 milljörðum í 13,2 milljarða króna. Rekstrarkostnaður jókst um 13,6% milli ára og nam tæplega 5,5 milljörðum.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórðungnum. var um 7,7 milljarðar og jókst um 2% milli ára. Rekstrarhagnaður (EBIT) dróst saman um 1,3% og nam nærri 3,9 milljörðum.

Helsta skýringin fyrir bættri afkomu OR á þriðja ársfjórðungi eru fjármagnsliðir en hrein fjármagnsgjöld námu 1,3 milljarði á þriðja fjórðungi 2023 samanborið við 4,9 milljarða á sama tíma í fyrra.

Ekki vitað um beint tjón Ljósleiðarans í Grindavík

Í afkomutilkynningu OR segir að Ljósleiðarinn sé eina fyrirtækið innan samstæðunnar sem á og rekur innviði í Grindavík. Þar hafi hluti bæjarins verið tengdur fjarskiptakerfi fyrirtækisins.

„Ekki er vitað um beint tjón á lögnum eða öðrum búnaði en þar sem bærinn er mannlaus að verulegu leyti er staðan ekki skýr.“

Orkuveitan segist hafa, fyrir hönd fyrirtækjanna í samstæðunni, boðið aðstoð starfsfólks vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

„Þar standa fyrirtæki sem eru í samsvarandi orku- og veiturekstri og Orkuveita Reykjavíkur frammi fyrir mikilli ógn og talsverðu tjóni. Neyðarstjórn OR hefur hist tvisvar vegna hættuástandsins einkum til að fara yfir viðbragðsáætlanir vegna hugsanlegs eldgoss. Öskufall getur kallað á aðgerðir til að verja búnað virkjana og veitna og var m.a. gripið til slíkra ráðstafana þegar Eyjafjallajökull gaus.“

„Hugur okkar hefur verið hjá Grindvíkingum síðustu vikur og starfssystkinum okkar á Suðurnesjum. Óvissan þar er þungbær og miklu skiptir um framhaldið hvernig tekst að tryggja þá grunnþjónustu sem orku- og veitufyrirtækin veita,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri OR.

„Atburðirnir hafa sýnt okkur hversu þungt hitaveitan vegur í orkuöryggi samfélaganna. Þarna gæti áhrifanna gætt langt út fyrir sjálft hættusvæði vegna hugsanlegra eldsumbrota. Þegar við sem rekum samfélagslega nauðsynlega starfsemi á eldvirkum svæðum undirbúum okkur undir að mæta svona atburðum, styðjumst við gjarna við tilbúna, skáldaða atburðarás til að bregðast við. Núna höfum við fyrir augunum hvernig ógnin getur birst í raun og veru. Það er því mikilvægt að sú þekking sem nú byggist upp skerpi sýn okkar á það hvernig skynsamlegast er að vera undir hamfarir búin. Okkur er trúað fyrir orkulindum og vatnsbólum sem nauðsynlegt er að samfélögin sem við þjónum hafi alltaf aðgang að.“