Á hluthafafundi Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, í dag var samþykkt tillaga stjórnar um aukningu hlutafjár félagsins um allt að 4,3 milljarða að nafnverði og sölu nýja hlutafjárins. Stefnt er að hlutafjáraukningunni verði lokið fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2023.
Tekið er fram að hlutirnir skulu einungis boðnir til „langtímafjárfesta sem hafa almannahagsmuni að leiðarljósi, s.s. lífeyrissjóðum, tryggingasjóðum tryggingafélaga og rekstrarfélögum verðbréfasjóða sem annast eignastýringu og umsýslu fyrir fyrrgreinda aðila“.
Samkvæmt tillögunni mun OR áfram eiga að minnsta kosti 60% hlut í Ljóðleiðaranum, að því er kemur fram í tilkynningu Ljósleiðarans. Tekið er fram að tillagan hafi verið samþykkt með fyrirvara um staðfestingu eigenda OR. Reykjavíkurborg er stærsti hluthafi Orkuveitunnar með 93,5% hlut en Akraneskaupstaður fer með 5,5% hlut og Borgarbyggð 0,9% hlut.
Eignir Ljósleiðarans voru bókfærðar á 30,4 milljarða króna í lok júní síðastliðins og eigið fé var 11,3 milljarðar. Tekjur Ljósleiðarans námu 1,8 milljörðum á fyrri hluta ársins, sem er 12% aukning frá sama tímabili í fyrra, en félagið tapaði 72 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins.
Ljósleiðarinn tilkynnti í lok júní um undirbúning hlutfjáraukningarinnar samhliða því að félagið samdi við utanríkisráðuneytið um afnot af tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins (NATO-strengsins), sem liggur hringinn í kringum Ísland og til Vestfjarða. Ljósleiðarinn leigir þræðina til allt að 10 ára með möguleika á frekari framlengingu.
Í byrjun september var tilkynnt um að Ljósleiðarinn og Sýn höfðu komist að samkomulagi um einkaviðræður og helstu skilmála samninga sem lúta annars vegar að sölu á stofnneti Sýnar til Ljósleiðarans og hins vegar að þjónustusamningi milli aðila til tíu ára. Kaupverðið nemur 3 milljörðum króna.
„Ljósleiðarinn hefur leitt uppbyggingu öflugra heimilistenginga fjarskipta hér á landi og á síðustu misserum brugðist við breyttum aðstæðum á fjarskiptamarkaði með aukinni áherslu á þjónustu við fjarskiptafyrirtæki. Uppbygging nýs landshrings fjarskipta er þáttur í þeirri aðlögun. Fyrir liggja hugmyndir um að fjármagna þessa og aðrar nauðsynlegar fjárfestingar með auknu hlutafé í fyrirtækinu,“ segir í fjárhagsspá OR sem var samþykkt í byrjun mánaðarins.