Orbis Medicines, sem Novo Holdings, móðurfélag Novo Nordisk, stofnaði árið 2021, lauk nýverið við 90 milljóna evra fjármögnunarlotu sem samsvarar um 13 milljörðum íslenskra króna.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen vinnur líftæknifyrirtækið að því að breyta lyfjagjöf fyrir fólk með króníska sjúkdóma.
Líftæknifyrirtækið mun nýta féð úr síðustu fjármögnunarlotu til að vinna að því að breyta lyfjum sem fólk með króníska sjúkdóma þarf að sprauta í æð eða vöðva yfir í töfluform.
Samhliða tilkynningunni um fjármögnunina greinir félagið frá því að Morten Graugaard, stjórnarmaður til þriggja ára og fyrrum starfsmaður Novo Holdings, muni taka við sem forstjóri Orbis Medicines.
„Þetta var frábær fjármögnunarlota og nú höfum við möguleikana á að skala upp þróun hjá okkur í von um að það sé hægt að hjálpa sjúklingum til lengri tíma með töflum fremur en sprautum,“ segir Graugaard.
New Enterprise Associates leiddi fjármögnunarlotuna en aðrir nýir fjárfestar í félaginu eru Lilly Ventures og Cormorant. Novo Holdings og Forbion juku einnig við hlutafé sitt í félaginu í hlutafjáraukningunni.
Mads Lacoppida, yfirmaður líftæknifjárfestinga hjá fjárfestingasjóði danska ríkisins, segir allt stefna í að Orbis muni gegna lykilhlutverki í að þróa næstu kynslóðar lyf fyrir fólk með króníska sjúkdóma.
„Horfurnar eru þær að Orbis takist að skapa nýtt viðmið í lyfjaþróun með einstöku efnatækninni sinni og notkun gervigreindar. Þetta getur á endanum bjargað mannslífum og bætt lífsskilyrði þeirra sem þurfa á meðferð að halda,“ segir Mads Lacoppidan.
En fjárfestingin snýst ekki eingöngu um möguleika tækninnar:
„Sögulega séð hefur Danmörk og Evrópa átt í erfiðleikum með að framkvæma stórar vaxtarfjármögnunarumferðir, en það hefur verið aukin alþjóðleg athygli á því að Danmörk sé að verða leiðandi miðstöð fyrir fjárfestingar í heilbrigðisþjónustu. Við vonum því líka að þessi fjárfesting geti stutt við jákvæða þróun á þessum markaði,“ útskýrir Mads Lacoppidan.