Aukið regluverk sem snýr að stjórnarháttum hefur haft í för með sér að stjórnarstörf eru orðin tímafrekari og stærra verkefni en áður. Þetta sagði Kristín Pétursdóttir, varaformaður stjórnar Arion banka, í pallborðsumræðum á málstofu Landssambands lífeyrissjóða um samskipti fjárfesta og stjórna í síðustu viku.

„Ef maður horfir á stjórnir í dag - hvað stjórnarmenn eru að eyða miklum tíma, hvað eru stjórnarfundir langir og hversu tíðir eru þeir o.s.frv. Þetta er ekki fullt starf en það kann að vera að það þurfi að gefa þessu meiri tíma. Ég sé ekki hvernig þetta eigi að gerast annars, því það er ekki eins og það sé hægt að taka eitthvað í burtu,“ sagði Kristín og vísaði þar í verkefni stjórna og regluverk sem snýr að þeim.

Með auknu regluverki verði þunginn sífellt meiri á eftirlitshlutverk stjórna. Kristín sagði mikilvægt fyrir stjórnir að falla ekki í þá gryfju að leggja of mikla áherslu á eftirlitshlutverkið. Jafnvægi þurfi að vera á milli þess og stefnumótun í rekstri.

Fyrir vikið þurfi að huga vel að samsetningu stjórnar og hvernig hún vinnur saman. Ákveðnir stjórnarmenn gætu lagt meiri áherslu á eftirlitsþáttinn og aðrir með hugann meira við rekstrarhliðina.

„Eftir því sem verkefnin verða fleiri - og það er ekkert verkefni sem er að fara út - þá er það kannski þannig að til þess að taka að sér þessi stjórnarstörf og sitja í stjórn þarf fólk að gera það í meiri tíma til þess að geta sinnt því hlutverki sem skyldi og geta haldið þessu jafnvægi.“

Betra að kosið sé til fjögurra ára?

Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, nefndi í kjölfarið að hann hafi um tíma setið í stjórn hollensks fyrirtækis í tólf ár. Þar hafi stjórnarmenn verið kosnir fjögur ár í senn.

„Það sem að það býður upp á er ákveðin innbyggð rótering. Það er ekki verið að setja alla stjórnina undir á tólf mánaða fresti. Þá er þetta meiri skuldbinding af hálfu þess sem býður sig fram en einnig tími til þess að setja sig inn í rekstur og umhverfið o.s.frv.“

Jón sagði að þetta fyrirkomulag hefði í för með sér öðruvísi dýnamík í samskiptum við hluthafa.

„Hugmyndafræðin er að hugsa til aðeins lengri tíma. Þá er líka verið að hugsa það þannig að það eru ekki allir sem koma inn á sama tímapunkti og allir sem fara út á sama tímapunkti, heldur ertu með svona rúllandi kerfi sem býður upp á líka auðveldara samtal.“

Hann nefndi að stundum komi fyrir að nokkrum eða jafnvel öllum stjórnarmönnum tiltekinns fyrirtækis er skipt út, t.d. þegar það hafa verið einhverjar uppákomur hjá umræddu fyrirtæki.

Jón gaf til kynna að lengri starfstími stjórnarmanna kunni að draga úr þörfinni á jafnmikilli breytingu á samsetningu stjórnar á tilteknum tímapunkti.