Götubitahátíðin, stærsta matarhátíð Íslands, fer fram núna um helgina í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Hátíðin var fyrst haldin árið 2019 og verður þetta því í fimmta sinn sem hún verður haldin.
Róbert Aron Magnússon, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir að hátt í 50 þúsund manns hafi mætt á hátíðina í fyrra sem þýði að hátíðin sé nú ekki aðeins stærsta matarhátíð landsins, heldur sé hún líka orðin þriðja stærsta hátíð sem haldin er á Íslandi.
„Þegar ég byrjaði í þessu árið 2019 þá sá ég að menn voru bara hver í sínu horni með sinn matarvagn. Síðan var bara ákveðið að sameina alla, því ef allir vinna saman þá græða allir. Svo út frá því opnast nýjar víddir þar sem fólk prufar sig áfram og fer að þekkja matinn mun betur.“
Hann segist einnig vongóður um veðurspána en sumarið í ár hefur reynst matarvögnum erfitt. Þá minnist hann til dæmis á Kótelettuna sem fór nýlega fram á Selfossi en þar rigndu veðurguðirnir hressilega á bæði gesti og veitingamenn sem elduðu ofan í þá.
„Sumarið á eftir að stimpla sig inn núna um helgina. Það góða líka við Hljómskálagarðinn er að hann tekur vel á móti fólki og verðum við með fleiri en 30 söluaðila í ár.“
Í ár verða nokkrir nýir þátttakendur ásamt þeim sem tóku þátt í fyrra. Silli kokkur verður til að mynda á sínum stað en hann sigraði Besta götubitann í fyrra. Róbert segir að hann verði með einhverja spennandi nýjung fyrir svanga gesti í ár.
Haukur Már Hauksson, eigandi Yuzu, mætir svo í samstarfi við Pylsumeistarann og verða einnig ítalskar samlokur frá Little Italy frá sömu aðilum og voru með matarvagninn La Cucina árið 2023.
Hátíðin er haldin í samstarfi við European Street Food Awards, stærsta götubitakeppni í heiminum. Sigurvegari Götubitahátíðarinnar í ár mun þá fá tækifæri til að fara út og kynna matinn sinn á þeirri keppni sem verður haldin í Saarbrucken í Þýskalandi næstkomandi október.
Róbert segir að langflestir matarvagnar verði með nýjungar sem verða bara í boði á hátíðinni. Popup Pizza, sem lenti í þriðja sæti í fyrra, verður til dæmis aftur með sérstaka pizzu sem er gerð sérstaklega fyrir hátíðina.
„Þetta er það sem við viljum að Götubitahátíðin sé, að þetta sé einstök upplifun sem þú getur ekki fengið venjulega og við erum að ná því markmiði núna í fimmta sinn,“ segir Róbert.