Heildarvelta ORF Líftækni nam 2.179 milljónum króna árið 2021 og hækkaði um 20% frá árinu áður. Hagnaður ársins nam 23,5 milljónum króna í samanburði við 146 milljóna króna tap árið 2020.
„Þrátt fyrir gríðarlegar áskoranir vegna Covid heimsfaraldursins þá hefur tekist að snúa rekstri fyrirtækisins úr vörn í sókn,“ segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri ORF Líftækni, í fréttatilkynningu.
Á aðalfundi félagsins sem haldinn var á föstudaginn var samþykkt tillaga stjórnar um útgáfu breytanlegra skuldabréfa fyrir allt að 500 milljónir króna i ORF Líftækni. Þá er frekari fjármögnun í undirbúningi sem áætlað er að geti numið allt að 25 milljónum evra, eða um 3,5 milljörðum króna, og ætlunin er að sækja þá fjármögnun til nýrra erlendra og sérhæfðra fagfjárfesta.
Aðskildar rekstrareiningar
ORF Líftækni telur að áhrifa faraldursins muni einnig gæta á árinu 2022 en á móti kemur hafi þessi krefjandi tími verið nýttur í að móta félaginu nýja stefnu til framtíðar. Undanfarið ár hafi verið unnið að nýrri stefnu og framtíðarsýn fyrir félagið sem felur í sér að skipta starfseminni upp í tvær ólíkar rekstrareiningar. Þær hafi notið samlegðar í gegnum árin standi nú frammi fyrir betri tækifærum með aðskildum rekstri.
BIOEFFECT Holding ehf. mun halda utan um sjálfstæða starfsemi fyrir húðvörur. ORF Líftækni hf. heldur utan um sjálfstæð starfsemi fyrir vaxtaþætti.
Við skiptinguna munu eignir félagsins skiptast á milli ORF Líftækni hf. og BIOEFFECT Holding ehf. Miðar skiptingin við 1. janúar 2022 og var hún samþykkt einróma af hluthöfum á aðalfundi félagsins en yfir 90% hluthafa sóttu fundinn.
Liv Bergþórsdóttir sem hefur verið forstjóri félagsins í 2 ár mun áfram starfa sem forstjóri beggja félaganna en síðan verða forstjóri BIOEFFECT í framhaldi af ráðningu stjórnar á nýjum forstjóra til að leiða ORF Líftækni.
Sækja á markað stofnfrumuræktaðs kjöts
ORF Líftækni starfar nú eftir skýrri framtíðarsýn um að vera virkur þátttakandi í nauðsynlegum breytingum í matvælaframleiðslu heimsins með ræktun og framleiðslu dýravaxtaþátta fyrir stofnfrumuræktað kjöt. Félagið hefur framleitt vaxtaþætti í um 15 ár og vinnur nú að því að þróa og framleiða nýja vörulínu dýravaxtaþátta fyrir stofnfrumuræktað kjöt en gríðarleg sóknartækifæri eru á þeim markaði ef spár um vöxt markaðarins ná fram að ganga.
Framundan er frekari fjármögnun á því verkefni til að styðja við uppskölun framleiðslunnar og sókn inn á þennan nýjan markað.
Sjálfkjörið var í stjórn Orf Líftækni hf. en hana skipa; Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Guðbjarni Eggertsson, Sigríður Elín Sigfúsdóttir, Knútur Dúi Kristján Zimsen og Sigtryggur Hilmarsson sem er jafnframt stjórnarformaður. Sama stjórn situr í báðum félögum, ORF Líftækni og BIOEFFECT Holding.