Gildistími yfirtökutilboðs Langasjávar í fasteignafélagið EIK rann út í gær og aðeins barst samþykki fyrir alls 247.190 hlutum í Eik.
Á þeim degi sem tilboðið var sett fram fór Langisjór og tengd félög með með 1.106.281.964 hluti í Eik sem samsvarar 32,31% af hlutafé félagsins.
Eftir tilboðið fer Langisjór og tengd félög með 1.106.529.154 hluti í Eik sem samsvarar 32,32% af hlutafé félagsins.
Langisjór keypti í lok ágúst 6 milljónir hluta í Eik fasteignafélagi auk þess að taka við 442 milljónum hluta frá dótturfélagi sínu Brimgörðum. Myndaðist í kjölfarið skylda til að leggja fram yfirtökutilboð í félagið.
„Við hefðum gjarnan viljað eignast fleiri bréf í Eik í aðdraganda yfirtökutilboðsins og í tilboðsferlinu sjálfu. Yfirtökutilboðið var hins vegar einungis fyrsta skrefið í vegferð Langasjávar að auka áhrif sín og eignarhald í Eik. Það lá lengi fyrir að Langisjór og samstarfsaðilar væru nálægt því að fara yfir 30% eignarhlut í Eik og þyrftu þannig að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Nú er Langasjó frjálst að eignast meirihluta í félaginu án þess að endurtaka það ferli. Hvenær og á hvern hátt Langisjór eykur við hlut sinn í Eik mun fara eftir markaðsaðstæðum og öðrum fjárfestingartækifærum sem bjóðast,” segir Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Langasjávar, í Kauphallartilkynningu í gær.
Langisjór hefði þurft að eignast um 34% hlut svo fjárfestingafélagið þyrfti að samþykkja allar stærri ákvarðanir fasteignafélagsins.
Af ummælum Gunnars Þórs að ráða er líklegt að félagið muni halda áfram að stækka hlut sinn í Eik.
Í tilboðsyfirliti Langasjávar var tekið fram að félagið vildi eignast meirihluta hlutafjár Eikar en viðhalda skráningu hlutabréfa þess á aðalmarkaði Nasdaq Iceland.
Virði Eikar um 44% yfir tilboðsverði
Tilboðsverð Langasjávar hljómaði upp á 11 krónur fyrir hvern hlut en þegar tilboðið var lagt fram var hæsta verð sem einhver hafði greitt fyrir hlutabréf í Eik á síðustu sex mánuðum 11,2 fyrir hvern hlut.
Dagslokagengi Eikar í gær var 12,4 krónur.
Stjórn Eikar óskaði eftir tveimur verðmötum í tengslum við yfirtökutilboðið en niðurstaða þeirra gaf til kynna virði Eikar væri meira en tilboðsverð Langasjávar
Að mati Arctica Finance er virði eiginfjár Eikar rúmir 54 milljarðar króna sem jafngildir um 15,8 krónum á hlut. Það samsvarar um 43,6% hærra verði á hlut en yfirtökutilboð Langasjávar.
Stjórn Eikar óskaði einnig eftir áliti frá KPMG hvað varðar eigið fé félagsins og reiknaði endurskoðendafyrirtækið eiginfjár Eikar að 52,5 milljarða króna virði. Samsvarar það um 15,4 krónum á hlut.
„Gengi Eikar hafði sveiflast í kringum 10 krónur á hlut lengstan hluta þessa árs þegar það tók nokkurn kipp í litlum viðskiptum strax eftir birtingu hálfsársuppgjörs félagsins þann 15. ágúst. Til stóð að Langisjór myndi bæta við sig eignarhlut með því að kaupa hlutabréf í utanþingsviðskiptum helgina eftir birtingu árshlutauppgjörs. Það gekk ekki eftir og þar eftir hækkaði gengi félagsins enn frekar eftir að yfirtökutilboð var lagt fram þannig að markaðsverð á hlutabréfum Eikar var orðið nokkuð hærra en tilboðsverð þegar yfir lauk,” segir Gunnar Þór.
Gunnar Þór segir að tilboðstíminn hafi þó veitt félaginu tækifæri til að eiga marga uppbyggilega fundi með stærstu hluthöfum Eikar.
„Þann vettvang höfum við nýtt til að ræða sýn okkar á uppbyggingu, skipulag og framtíðarhorfur félagsins við meðeigendur. Við finnum góðan samhljóm hjá þeim við þau áhersluatriði okkar að hagræða í eignasafni Eikar, auka arðgreiðslur og skuldsetningu félagsins. Þessi samstilling í hluthafahópi félagsins gefur okkur tækifæri til að horfa björtum augum fram á veginn þar sem hagsmunir hluthafa fara saman við vegferð Eikar.“