Gildis­tími yfir­töku­til­boðs Langa­sjávar í fast­eigna­fé­lagið EIK rann út í gær og að­eins barst sam­þykki fyrir alls 247.190 hlutum í Eik.

Á þeim degi sem til­boðið var sett fram fór Langi­sjór og tengd fé­lög með með 1.106.281.964 hluti í Eik sem sam­svarar 32,31% af hluta­fé fé­lagsins.

Eftir til­boðið fer Langi­sjór og tengd fé­lög með 1.106.529.154 hluti í Eik sem sam­svarar 32,32% af hluta­fé fé­lagsins.

Langi­sjór keypti í lok ágúst 6 milljónir hluta í Eik fast­eigna­fé­lagi auk þess að taka við 442 milljónum hluta frá dóttur­fé­lagi sínu Brim­görðum. Myndaðist í kjölfarið skylda til að leggja fram yfirtökutilboð í félagið.

„Við hefðum gjarnan viljað eignast fleiri bréf í Eik í að­draganda yfir­töku­til­boðsins og í til­boðs­ferlinu sjálfu. Yfir­töku­til­boðið var hins vegar einungis fyrsta skrefið í veg­ferð Langa­sjávar að auka á­hrif sín og eignar­hald í Eik. Það lá lengi fyrir að Langi­sjór og sam­starfs­aðilar væru ná­lægt því að fara yfir 30% eignar­hlut í Eik og þyrftu þannig að gera öðrum hlut­höfum yfir­töku­til­boð. Nú er Langa­sjó frjálst að eignast meiri­hluta í fé­laginu án þess að endur­taka það ferli. Hve­nær og á hvern hátt Langi­sjór eykur við hlut sinn í Eik mun fara eftir markaðs­að­stæðum og öðrum fjár­festingar­tæki­færum sem bjóðast,” segir Gunnar Þór Gísla­son, fram­kvæmda­stjóri Langa­sjávar, í Kaup­hallar­til­kynningu í gær.

Langisjór hefði þurft að eignast um 34% hlut svo fjárfestingafélagið þyrfti að samþykkja allar stærri ákvarðanir fasteignafélagsins.

Af ummælum Gunnars Þórs að ráða er líklegt að félagið muni halda áfram að stækka hlut sinn í Eik.

Í tilboðsyfirliti Langasjávar var tekið fram að félagið vildi eignast meirihluta hlutafjár Eikar en viðhalda skráningu hlutabréfa þess á aðalmarkaði Nasdaq Iceland.

Virði Eikar um 44% yfir til­boðs­verði

Til­boðs­verð Langa­sjávar hljómaði upp á 11 krónur fyrir hvern hlut en þegar til­boðið var lagt fram var hæsta verð sem ein­hver hafði greitt fyrir hluta­bréf í Eik á síðustu sex mánuðum 11,2 fyrir hvern hlut.

Dagsloka­gengi Eikar í gær var 12,4 krónur.

Stjórn Eikar óskaði eftir tveimur verð­mötum í tengslum við yfir­töku­til­boðið en niður­staða þeirra gaf til kynna virði Eikar væri meira en til­boðs­verð Langa­sjávar

Að mati Arcti­ca Finance er virði eigin­fjár Eikar rúmir 54 milljarðar króna sem jafn­gildir um 15,8 krónum á hlut. Það sam­svarar um 43,6% hærra verði á hlut en yfir­töku­til­boð Langa­sjávar.

Stjórn Eikar óskaði einnig eftir á­liti frá KPMG hvað varðar eigið fé fé­lagsins og reiknaði endur­skoð­enda­fyrir­tækið eigin­fjár Eikar að 52,5 milljarða króna virði. Sam­svarar það um 15,4 krónum á hlut.

„Gengi Eikar hafði sveiflast í kringum 10 krónur á hlut lengstan hluta þessa árs þegar það tók nokkurn kipp í litlum við­skiptum strax eftir birtingu hálfs­árs­upp­gjörs fé­lagsins þann 15. ágúst. Til stóð að Langi­sjór myndi bæta við sig eignar­hlut með því að kaupa hluta­bréf í utan­þings­við­skiptum helgina eftir birtingu árs­hluta­upp­gjörs. Það gekk ekki eftir og þar eftir hækkaði gengi fé­lagsins enn frekar eftir að yfir­töku­til­boð var lagt fram þannig að markaðs­verð á hluta­bréfum Eikar var orðið nokkuð hærra en til­boðs­verð þegar yfir lauk,” segir Gunnar Þór.

Gunnar Þór segir að til­boðs­tíminn hafi þó veitt fé­laginu tæki­færi til að eiga marga upp­byggi­lega fundi með stærstu hlut­höfum Eikar.

„Þann vett­vang höfum við nýtt til að ræða sýn okkar á upp­byggingu, skipu­lag og fram­tíðar­horfur fé­lagsins við með­eig­endur. Við finnum góðan sam­hljóm hjá þeim við þau á­herslu­at­riði okkar að hag­ræða í eigna­safni Eikar, auka arð­greiðslur og skuld­setningu fé­lagsins. Þessi sam­stilling í hlut­hafa­hópi fé­lagsins gefur okkur tæki­færi til að horfa björtum augum fram á veginn þar sem hags­munir hlut­hafa fara saman við veg­ferð Eikar.“