Origo hefur náð samkomulagi um sölu á öllum 40% eignarhlut sínum í hlutdeildarfélaginu Tempo til Diversis Tempo Holdings II, LLC, félags á vegum bandaríska tæknifjárfestingarsjóðsins Diversis Capital, fyrir 195 milljónir dala, eða um 27,8 milljarða króna miðað við gengi dagsins. Félögin náðu samkomulagi um skuldbindandi kaupsamning í kvöld, að því er kemur fram í tilkynningu Origo til Kauphallarinnar.
Áætlaður söluhagnaður Origo er um 156 milljónir dala eða um 22,3 milljarðar króna, að teknu tilliti til bókfærðs virðis og kostnaðar vegna viðskiptanna. Til að setja fjárhæðina í samhengi þá nam markaðsvirði Origo við lokun Kauphallarinnar í dag 30,2 milljörðum króna.
Virði Tempo í viðskiptunum (e. enterprise value) er um 600 milljónir dala, eða um 85,6 milljarðar króna.
Tempo býr til hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum við tímastjórnun, áætlanagerð og kostnaðarstjórnun. Tempo var upphaflega þróað sem lausn við innanbúðarvandamáli hjá Nýherja, sem nú heitir Origo, í kringum fjármálahrunið en árið 2015 var stofnað sérstakt félag utan um rekstur Tempo.
„Ljóst er að salan á Tempo mun hafa umtalsverð jákvæð áhrif á efnahagsreikning Origo þar sem lausafjárstaða styrkist og geta til innri og ytri vaxtar verður umtalsverð. Stjórn og framkvæmdastjórn Origo munu vinna að tillögu um ráðstöfun söluandvirðisins sem verður kynnt hluthöfum í framhaldinu,“ segir í tilkynningunni.
Nánar verður gerð grein fyrir viðskiptunum á uppgjörsfundi Origo mánudaginn 31. október næstkomandi.
Hjalti Þórarinsson, stjórnarformaður Origo:
„Nú er komið að ánægjulegum tímamótum hjá Origo og Tempo eftir um 15 ára vegferð. Stórt skref var tekið í nóvember 2018 þegar Origo seldi meirihluta í félaginu til Diversis Capital í þeim tilgangi að fá meðfjárfesta með alþjóðlega reynslu til að hraða vexti félagsins og auka virði fyrir hluthafa Origo.
Sú vegferð sem Origo lagði upp með þá hefur að fullu gengið eftir og rúmlega það, og hefur virði Tempo áttfaldast frá því haustið 2018. Arðsemi Origo af þessum viðskiptum er frábær og hluthafar Origo innleysa hér mikil verðmæti.”
Jón Björnsson, forstjóri Origo:
„Origo hefur í áraraðir lagt mikla áherslu á nýsköpun og hugbúnaðarþróun sem hluta af menningu og rekstri félagsins. Tempo byrjaði sem hugmynd hjá starfsmönnum Origo árið 2008 og hefur vaxið og dafnað frá þeim tíma.
Sala á meirihluta í félaginu til Diversis Capital árið 2018 reyndist mjög góð ákvörðun hjá stjórnendum Origo. Árangur Diversis með Tempo hefur farið fram úr væntingum. Tempo stendur nú á ákveðnum krossgötum í sinni vegferð eftir kaup á tveimur nýjum félögum sem meira en tvöfaldar stærð félagsins.
Vegferð Tempo sýnir skýrt hvað frábært starfsfólk, íslenskt hugvit, stuðningur eigenda og stjórnvalda getur búið til mikil verðmæti í hugbúnaðargeiranum. Origo heldur áfram að þróa lausnir sem breyta leiknum líkt og Tempo hefur gert og vonum við að fleiri hugbúnaðarvörur geti átt jafn farsælan feril og Tempo.
Við óskum starfsfólki Tempo og Diversis alls hins besta og þökkum fyrir samfylgdina síðustu ár og vonandi mun félagið halda áfram að vaxa og dafna líkt og áður.“
Ráðgjafar Origo í viðskiptunum voru LOGOS, AGC Partners og McGuireWoods.