Orkusalan og e1 hafa hafið samstarf og verða hleðslustöðvar Orkusölunnar nú aðgengilegar í gegnum smáforrit e1. Orkusalan segir að með þessu sé fyrirtækið að styðja við íslensk sprotafyrirtæki og auðvelda rafbílaeigendum aðgang að öllum stöðvum á einum stað.
e1 er íslenskt hugbúnaðarsprotafyrirtæki sem hefur þróað app þar sem hægt er að finna hleðslustöðvar og greiða fyrir þjónustuna. Aðalmarkmið e1 er að sameina allar hleðslustöðvar á einum stað en koma jafnframt á deilihagkerfi þar sem eigendur hleðslustöðva geta selt öðrum aðgang að sínum stöðvum.
,,Rafbílaeigendur hafa lengi kallað eftir því að aðgengi og notkun hleðslustöðva verði auðveldað óháð því hver á þær eða rekur, en nú þegar eru nokkur slík fyrirtæki á markaðnum og flest eru þau með sínar eigin lausnir. Þetta þýðir að rafbílaeigendur hafa þurft að skrá sig víða og sækja fjölda smáforrita en nú viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að koma öllu á einn stað með því að nota e1-appið,” segir Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar
Orkusalan hefur sett upp hraðhleðslustöðvar bæði á Akureyri og á Suðurlandi en Orkusalan og Ískraft hafa gert með sér samkomulag um uppbyggingu hraðhleðslustöðva um land allt á næstu árum.
„Við erum deilihagkerfi eða svokallað markaðstorg fyrir allar hleðslustöðvar þar sem notendur geta fundið hleðslustöðvar, hlaðið bílinn og greitt fyrir á einfaldan máta. Okkar lausn er nú þegar í notkun hjá fjölda fyrirtækja og húsfélaga og bjóðum við öllum núverandi og nýjum eigendum hleðslustöðva að tengja þær við e1-appið,“ segir Hafrún Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri e1.