Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir félagið ekki hafa verið undir það búið að raforka til að knýja fiskimjölsverksmiðju á Vopnafirði yrði ekki fáanleg. Útgerðarfélagið hefur brugðist við með að kaupa tvær díselrafstöðvar og komið þeim fyrir og rekið í miðjum Vopnafjarðarbæ.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir félagið ekki hafa verið undir það búið að raforka til að knýja fiskimjölsverksmiðju á Vopnafirði yrði ekki fáanleg. Útgerðarfélagið hefur brugðist við með að kaupa tvær díselrafstöðvar og komið þeim fyrir og rekið í miðjum Vopnafjarðarbæ.

„Það kom okkur í opna skjöldu að við þyrftum að gera langtímasamninga um raforkukaup til að tryggja þá raforku sem við þyrftum,“ segir Guðmundur í uppgjörstilkynningu félagsins.

„Ekki hvarflaði að okkur þegar Brim á sínum tíma fjárfestum í búnaði til að knýja fiskmjölsverksmiðju okkar með rafmagni að í framtíðinni yrði búið að selja það mikla raforku í langtímasamninga við stórnotendur að orkan yrði uppseld og ófáanleg.“

Guðmundur bætir við að fyrirkomulag langtímasölusamninga raforku taki ekki tillit til óvissu um aflabrögð og náttúrulegra sveiflna í nýtingu endurnýjanlegra auðlinda, líkt og fiskistofnarnir við Ísland eru.

Sú ráðstöfun að þurfa að knýja fiskimjölsverksmiðjuna með díselolíu hafi bæði aukið kostnað og stækkað kolefnisspor félagsins.

„Mikilvægt er að breytingar á raforkulögum og þróun raforkumarkaðar á Íslandi styðji vegferð fyrirtækja í loftslagsmálum og markmið raforkulaganna um eflingu atvinnulífs og byggðar í landinu,“ segir Guðmundur.

„Eða kemur að því á næstunni að Brim og önnur fyrirtæki á Íslandi þurfi að kaupa rafmagn af stóriðjunni á uppsprengdu verði þar sem stóriðjan hefur gert langtíma raforkusamninga við Landsvirkjun en íslenskt atvinnulíf og almenningur ekki?“

Hagnaður Brims dróst verulega saman

Brim hagnaðist um 4,5 milljónir evra, eða sem nemur 672 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Hagnaður félagsins á fyrsta fjórðungi dróst saman um nærri 70% frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 18,9 milljónir evra.

Sala Brims á fjórðungnum nam 94,5 milljónum evra eða um 14,1 milljarði króna, og dróst saman um 16,7% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) dróst saman um 58,6% og nam 12 milljónum evra eða um 1,8 milljörðum króna.

„Gæftir voru erfiðar á fyrstu þremur mánuðum ársins. Kolmunnaveiðin gekk ágætlega en loðnan lét ekki sjá sig. Loðnubrestur hefur alltaf mikil áhrif á afkomu félagsins á þessum ársfjórðungi. Afkoman núna er áþekk og á árum áður þegar lítið sem ekkert hefur veiðst af loðnu,“ segir Guðmundur.

Hann segir markaði félagsins áfram erfiða, enn sé óvissa uppi vegna stríða og fjármunir eru áfram dýrir sem dragi bæði úr neyslu og uppbyggingu.

Kaupa frystitogara á 8 milljarða

Í uppgjörstilkynningunni kemur fram að Brim hafi í dag gengið frá samkomulagi um kaup á frystitogaranum Ilivileq frá Arctic Prime Fisheries í Grænlandi fyrir 55 milljónir evra, eða um 8,2 milljarða króna.

„Skipið mun styrkja frekar bolfiskveiðar félagsins en þær og vinnsla þeirra var eins og við reiknuðum með á árinu.“