Hagstætt orkuverð og og loftslag eru meginástæðurnar fyrir því að Ísland er kjörlendi fyrir ræktun þörunga sem vinna má úr verðmæt fæðubótarefni að sögn Orra Björnssonar, framkvæmdastjóra Algalíf. „Það er hægt að gera langtímasamninga og svo er loftslagið gott fyrir okkur. Það er minna umhverfisálag, það er svo lítið sem lifir í loftinu hér. Það er miklu minna um þörunga, bakteríur og myglu í loftinu sem ógna framleiðslunni. Það er tiltölulega kalt hérna og stöðugt hitastig sem skiptir miklu máli fyrir okkar starfsemi,“ segir Orri.

Algalíf ræktar þörunga á Reykjanesi sem innihalda virka efnið Astaxanthin sem selt er sem fæðubótarefni um allan heim. Algalíf framleiðir um 10% af öllu Astaxanthin í heiminum en markaðurinn fyrir efninu fer vaxandi. „Já, það er stöðugur vöxtur svona á bilinu 10-15% erum við að reikna með,“ segir Orri. Hann segir mestu söluna vera til Evrópu, næstmest fari til Bandaríkjanna og að Asía sé númer þrjú. „En við gerum ráð fyrir að það geti snúist við strax á næsta ári. Asía verði þá númer eitt, það eru mestu möguleikarnir þar.

Skortur leiddi til kaupanna

Félagið var stofnað árið 2013. „Fyrirtækið er í eigu Norðmanna. Þeir eru í þessum fæðubótageira og selja mikið í áskrift í Noregi og Skandinavíu og vildu eignast fyrirtæki sem gæti framleitt fyrir þá hráefnin. Áður voru þeir ekki í framleiðslu heldur bara sölu. Það sem ýtti þeim út í þetta verkefni var að það var skortur á hráefnum og þeir í vandræðum með að útvega sér þau. Þá var ákveðið að tryggja sér stöðugt framboð með því að kaupa fyrirtæki sem gæti framleitt Astaxanthin,“ segir Orri en á þeim tíma sem Norðmennirnir keyptu sig inn í félagið var það enn í þróunarstarfsemi. „Við vorum bara úti í Noregi í gróðurhúsi þegar þeir keyptu sig inn,“ segir hann.

Nú hyggst Algalíf auka við vöruframboð sitt. „Við erum að vinna í tveimur öðrum þörungum núna og stefnum á að komast með vörur á markað innan tveggja ára,“ segir Orri en leynd ríkir yfir því hvaða þörungar og efni eru um að ræða. „Það er trúnaðarefni enn sem komið er, hvaða vörur þetta eru en þetta verða fæðubótarefni. Þetta eru spennandi efni sem eru með þekkta og sannaða virkni,“ segir hann.

Algalíf keypti nýlega húsnæði sem það hefur verið með á leigu. „Við vorum með það í leigu en við áttum kauprétt á því sem við ákváðum að nýta. Þá erum við búnir að tryggja okkur hér til frambúðar og þurfum ekki að hafa áhyggjur af neinu varðandi húsnæðismál. Við erum líka að semja um lóðaréttindi til þess að tryggja okkur lóðir við hliðina á húsnæðinu svo við getum stækkað,“ segir Orri.

Spurður um hvenær fyrirtækið sé að stefna á frekari stækkun segir hann: „Við erum að stækka pínulítið á þessu ári, erum að setja af stað litla viðbyggingu og setja upp nýja vinnslulínu. En að byggja aðra ræktunarverksmiðju verður vonandi 2020.“