Meirirhlutaviðræður Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Flokks fólksins í borginni í mættu óvæntri mótstöðu á laugardaginn.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins boðaði Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, í skyndi til fundar í Stjórnarráðinu þennan dag. Á fundinn mætti Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem og Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður Flokks fólksins og Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.

Hvað Kristrún sagði nákvæmlega hefur ekki verið upplýst en fundurinn hefur verið örlagaríkur því um klukkan sex síðdegis á laugardaginn tilkynnti Inga Sæland að flokkur hennar myndi ekki taka þátt í að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda í borginni. Þar með varð ljóst að viðræður um nýjan meirihluta frá miðju til hægri voru runnar út í sandinn og það þrátt fyrir að Helga Þórðardóttir, oddviti Flokks fólksins í borginni, hafi tekið þátt í þeim af fullri alvöru.

Staðan í borgarmálunum hefur verið ríkisstjórnarflokkunum hugleikin því samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins funduðu Kristrún, Inga Sæland og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, um stöðuna í borginni á sunndaginn, 9. febrúar.

Síðustu daga hefur töluvert verið rætt um myndun nýs meirihluta vinstriflokkanna í borgarstjórn. VG og Sósíalistar mynduðu bandalag um myndun slíks meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Flokki fólksins.

Eitthvað virðast þessar viðræður ganga treglega. Það er kannski engin furða, sérstaklega þegar haft er í huga að Flokkur fólksins hefur verið hvað gagnrýnastur á margt sem þessir flokkar hafa staðið fyrir, má sem dæmi nefna samgöngumál og borgarlínu, þéttingu byggðar og stafræna vegferð borgaryfirvalda.

Nánar fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.