Örn Valdimarsson og Ómar Gunnar Ómarsson voru nýlega ráðnir til PwC hér á landi. Örn var ráðinn sviðsstjóri ráðgjafar hjá PwC en Ómar Gunnar sem endurskoðandi. Örn hefur undanfarin ár starfað hjá Eyrir Invest og tengdum félögum, nú síðast sem framkvæmdastjóri Eyrir Venture Management. Áður starfaði Örn hjá Viðskiptablaðinu bæði sem framkvæmdastjóri og ritstjóri.

Ómar Gunnar Ómarsson er endurskoðandi og kemur frá Enor ehf. þar sem hann var hluthafi. Ómar Gunnar býr yfir alþjóðlegri þekkingu og reynslu á sviði endurskoðunar. Á árunum 2012- 2020 starfaði hann bæði í Noregi og Svíþjóð með áherslu á endurskoðun skráðra félaga, en einnig kom hann að fræðslumálum innan endurskoðunar hjá Deloitte AB.

„Við erum afar ánægð að fá þessa hæfu og reyndu sérfræðinga, Örn og Ómar, til liðs við okkur. Ómar býr að mikilli reynslu í endurskoðun og bætist í góðan hóp öflugra endurskoðenda hjá PwC. Örn kemur inn í fyrirtækjaráðgjöf PwC með dýrmæta reynslu við skoðun og mat á fjárfestingakostum sem nýtist vel í meginviðfangsefni ráðgjafasviðsins sem eru verðmöt, áreiðanleikakannanir og kaup og sala fyrirtækja“ segir Ljósbrá Baldursdóttir, forstjóri PwC.