Barclays og UBS skiluðu hagnaði umfram væntingar á fyrsta ársfjórðungi, þökk sé aukinni veltu í verðbréfaviðskiptum. Óvissa á mörkuðum, sem jókst eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði nýjum tollum í byrjun apríl, ýtti undir aukin viðskipti með hlutabréf, skuldabréf og gjaldmiðla og færði evrópskum bönkum verulegan tekjuvöxt, samkvæmt The Wall Street Journal.

Á meðan bandarískir bankar hafa lengi verið leiðandi í viðskiptum með fjármálagerninga hafa sumir evrópskir bankar fjárfest markvisst í tækni og mannauði til að bæta samkeppnisstöðu sína.

Nú eru þessar fjárfestingar farnar að skila árangri, sér í lagi þegar fjárfestar eru að sækja í meira mæli inn á evrópskan markað.

Óstöðugleiki á skuldabréfa- og gjaldeyrismörkuðum hefur verið megindrifkraftur aukinnar veltu á viðskiptadeildum bankanna, þar sem bæði Barclays og UBS hafa hagnast á því að vera vel í stakk búnir til að nýta sveiflur í verði og eftirspurn.

Fjárfestingar í tækni og afleiðum skila árangri

Barclays skilaði á dögunum uppgjöri sem fór fram úr væntingum markaðsaðila. Tekjur af hlutabréfaviðskiptum jukust um 27% frá sama tíma í fyrra, sem er í samræmi við það sem helstu bandarískir bankar hafa sýnt, þar sem vöxturinn hefur verið á bilinu 30–35%.

Tekjur af viðskiptum með skuldabréf, gjaldmiðla og hrávörur (svonefnd FICC-viðskipti) jukust um 21% milli ára, sem var mun meiri aukning en hjá bandarískum keppinautum, þar sem tekjur í þeim geira jukust að jafnaði um 5%.

Þessi viðskiptavirkni vegur upp á móti áföllum annars staðar í rekstrinum, þar sem áframhaldandi efnahagsleg óvissa hefur dregið úr afkomu í öðrum einingum.

Samkvæmt Önnu Cross, fjármálastjóra Barclays, hefur bankanum tekist að „nýta sér sveiflur á mörkuðum“ með góðum árangri.

Sérstaklega hefur gengið vel í viðskiptum með vaxtaafleiður, hlutabréf og verðbréfavafninga, þremur kjarnasviðum sem bankinn setti í forgang í nýrri stefnu árið 2023.

Á undanförnum þremur árum hefur Barclays fjárfest yfir tveimur milljörðum punda, um 2,7 milljörðum bandaríkjadala, í tækni og innviðum viðskiptadeilda sinna.

UBS styrkist með aukinni viðskiptaveltu

Hjá UBS jókst veltan í hlutabréfaviðskiptum um þriðjung frá fyrra ári, aðallega vegna aukinna viðskipta vogunarsjóða. Þar að auki var mikil virkni í gjaldeyrisviðskiptum.

Bankinn hefur nýtt samrunann við Credit Suisse á síðasta ári til að efla teymi og þjónustu í verðbréfaviðskiptum og virðist sá ávinningur nú fara að skila sér í aukinni afkomu

Bandarískir bankar hafa um árabil notið yfirburða í verðbréfaviðskiptum, ekki síst vegna umfangsmikilla fjárfestinga í tækni og tölvuvæddri viðskiptaumgjörð.

C.S. Venkatakrishnan, forstjóri Barclays
C.S. Venkatakrishnan, forstjóri Barclays

Evrópskir bankar hafa á sama tíma þurft að glíma við strangari reglur og innri umbreytingar og hafa tekjur af viðskiptadeildum oft verið gagnrýndar fyrir að vera sveiflukenndar og óáreiðanlegar.

C.S. „Venkat“ Venkatakrishnan, forstjóri Barclays, hefur ákveðið að halda viðskiptadeildinni innan bankans, en draga úr vægi hennar í heildartekjum samstæðunnar.

Þrátt fyrir það sýnir fyrsti ársfjórðungur 2025 að vel ígrundaðar fjárfestingar í tæknilausnum og markviss áhersla á lykilsvið geta skilað evrópskum bönkum verulegum ávinningi á óstöðugum mörkuðum.