Hlutabréfamarkaðir eru sýna tvöfalt eðli um þessar mundir þar sem þrátt fyrir tiltölulega stöðuga þróun S&P 500-vísitölunnar eru einstök hlutabréf innan vísitölunnar að sveiflast verulega.
Þessi þróun hefur valdið undrun meðal fjárfesta og sérfræðinga, en á bak við hana leynast ýmsir markaðsþættir sem gætu haft víðtæk áhrif, samkvæmt greiningu The Wall Street Journal.
S&P 500 hefur hækkað um 4% á árinu, en á sama tíma hefur markaðurinn orðið fyrir tveimur áföllum: vaxandi áhrifum kínverskrar gervigreindartækni og viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína.
Það sem er þó sérstakt er að þrátt fyrir þessar áskoranir hefur óvissuþátturinn í markaðnum ekki aukist verulega, þar sem VIX-vísitalan, sem mælir vænt flökt S&P 500 vísitölunnar samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni og gefur vísbendingu um áhættufælni fjárfesta, hefur haldist undir langtímameðaltali.
Það sem gerir ástandið enn undarlegra er að einstök hlutabréf innan vísitölunnar sveiflast verulega óháð hvert öðrum.
Tæknirisarnir sjö hafa tapað samanlagt 2,7% frá 24. janúar, þegar fréttir af kínverska gervigreindarfyrirtækinu DeepSeek hræddu fjárfesta.
Hins vegar hefur Alphabet lækkað um 7,5%, á meðan Meta Platforms hefur hækkað um 13,8%.
Aukning hefur orðið á „dreifingu“ hlutabréfaverða, sem þýðir að einstakir hlutir eru að færast óháð almennum markaðshreyfingum.

Vísitala Cboe S&P 500 hefur verið að hækka og náði nýlega hæstu gildum síðan í maí 2022.
Á venjulegum markaði gæti þetta bent til þess að fjárfestar séu meira að horfa til frétta af einstökum fyrirtækjum frekar en stórra efnahagslegra sveiflna.
Árið 2025 virðist þó einkennast af stórum straumum á borð við þróun í gervigreind og verndarstefnu í viðskiptum.
Dæmi um aukna dreifingu innan einstakra geira má sjá í tækniiðnaðinum. Innkoma Kínverja á gervigreindarmarkaðinn virðist hafa mismunandi áhrif á bandarísk tæknifyrirtæki.
Framleiðendur tölvuflaga og rafmagnsbúnaðar hafa verið undir þrýstingi, en ekki á samræmdan hátt.
Til dæmis hefur Connecticut-fyrirtækið Hubbell, sem framleiðir rafeindabúnað tengdan gagnaverum, lækkað um 14,3% frá 24. janúar, á meðan gagnaversfyrirtækið Equinix hefur einungis tapað 0,8%. Nvidia, sem framleiðir örgjörva, hefur tapað 2,6% á sama tímabili.
Sama mynstur sést í öðrum geirum.
Rannsókn Wolfe Research á hópi fyrirtækja sem eru viðkvæm fyrir tollastefnu, þar á meðal Caterpillar, Hasbro og Dollar General, sýnir að verðbreytingar þeirra eru lítt tengdar, þrátt fyrir sífellt harðari tollastefnu Trump-stjórnarinnar.
Þetta virðist einnig eiga við um evrópskan hlutabréfamarkað, samkvæmt WSJ.
Hvað veldur þessari þróun?
Ein möguleg skýring er að markaðurinn sé á tímabili óskynsamlegrar bjartsýni. Fjárfestar virðast sækja í ákveðin bréf í kjölfar jákvæðra frétta og losa sig einungis við veikustu bréfin úr sínum eignasöfnum þegar neikvæðar fréttir koma upp.
Önnur kenning er að vogunarsjóðir séu að magna upp þessa dreifingu. Margir þeirra hafa fjárfest í afleiðusamningum þar sem þeir veðja á stöðuga vísitölu en miklar sveiflur í einstökum bréfum.
Þessi stefna skilaði 28% ávöxtun árið 2024, samkvæmt gögnum Cboe, sem er meira en heildarávöxtun S&P 500.
Þetta getur skapað hringrás þar sem hlutabréf sveiflast enn meira vegna þess að bankar, sem eru á hinni hlið viðskiptanna og þurfa að verja stöður sínar með viðbótarviðskiptum í undirliggjandi hlutabréfum.
Að auki gætu vaxandi viðskipti með skammtímavalrétti meðal smærri fjárfesta og nýjar fjárfestingavörur sem nota afleiður verið að skekkja markaðinn.
Áhætta við markaðinn sem stendur
Þrátt fyrir lága óvissu í heild er ljóst að ef dreifing í einstökum hlutabréfum minnkar skyndilega gæti það valdið snöggum samdrætti í S&P 500.
Saga markaðsins sýnir að þegar samræmi eykst aftur gerist það oftast í kjölfar almenns lækkunartímabils.
Fjárfestar hafa því verið á varbergi en ótti er um að sumir séu of bjartsýnir á núverandi stöðugleika í vísitölunni og ættu að huga að áhættuvörnum með aukinni skuldabréfa- og lausafjárstöðu.