Bandaríkjastjórn hóf nýtt tollastríð á mánudaginn þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um nýja tolla á vörur frá Kanada, Mexíkó og Kína.

Robert Wessman, stofnandi og forstjóri Alvotech, segist hugsi yfir tollastríði Bandaríkjanna.

„Við sem erum fylgjandi frjálsum viðskiptum, sem hafa verið undirstaða hagvaxtar og batnandi lífskjara í heiminum, hljótum að vera hugsi yfir þessum vendingum, segir Róbert. „Háir verndartollar í Bandaríkjunum munu að líkindum bitna verst á almenningi í Bandaríkjunum með hækkandi verðlagi á nauðsynjavörum, aukinni verðbólgu, hækkun vaxta og lækkun á hlutabréfamörkuðum.

Þetta er því órökrétt stefna og ég á allt eins von á að ástandið vari ekki í langan tíma. Ég tel líklegast að þetta sé aðgerð til þess að ná fram samningum til lengri tíma til hagsbóta fyrir Bandaríkin.”

Ísland ekki verið nefnt

Róbert telur engan veginn gefið að tollar verði lagðir á innflutning frá Íslandi.

„Ísland hefur ekki verið nefnt í þessu samhengi að undanförnu og þegar Evrópu ber á góma sýnist mér að spjótin beinist fyrst og fremst að Evrópusambandsríkjunum,” segir hann. „Stjórnvöld hér geta og eiga að halda fram okkar sérstöðu, þar sem við erum erum ekki hluti af tollabandalagi ESB ríkjanna. Þá er vöruskiptajöfnuður okkar við Bandaríkin þeim í hag, sem eru sterk rök gegn því að setja verndartolla á íslenskar vörur.

Í þessu tilviki þurfa stjórnvöld að hafa hagsmuni Íslands í huga. Ef við erum undanskilin nýjum tollum, skapar það óhjákvæmilega forskot fyrir íslensk fyrirtæki. Ég sé ekkert að því að nýta með þeim hætti okkar sérstöðu og beita öllum ráðum til að verja útflutningsfyrirtækin á Íslandi, þótt við séum auðvitað í grundvallaratriðum mótfallin því að beita tollum með þessum hætti.”

Áhrifin á Alvotech

Spurður hvaða þýðingu það hefði fyrir Alvotech ef 25% tollar yrðu lagðir á íslenskar vörur svarar Róbert: „Staðreyndin er að Bandaríkin eru háð innflutningi á ýmsum sviðum. Þannig eru til dæmis nær allir framleiðendur líftæknihliðstæðulyfja utan Bandaríkjanna. Ef tollar væru settir á innflutt líftæknihliðstæðulyf, sem væri frekar órökrétt þar sem stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum er að lækka lyfjakostnað, þá verða hliðstæðulyfin samt mun ódýrari í innkaupum en frumlyfin þrátt fyrir tollana."

„Líftæknilyf eru nauðsynleg úrræði fyrir sjúklinga með þráláta sjúkdóma og þörfin fer sífellt vaxandi. Hliðstæðulyfin draga stórlega úr lyfjakostnaði og eru í raun eina leiðin til að ná niður kostnaði við líftæknilyf. Tollarnir hafa engin áhrif á framleiðslugetu fyrir þessi lyf í Bandaríkjunum, það tekur of langan tíma að byggja upp aðstöðu og fjárfestar væru ekki tilbúnir að taka áhættuna bara út frá þessu tímabundna ástandi.

Þannig að við gerum ekki ráð fyrir að þetta leiði til minnkandi eftirspurnar fyrir okkar vörur í Bandaríkjunum.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.