Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, hefur ráðist í að selja eignarhluti í vindmylluverkefnum sínum við strendur Bretlandseyja en orkufyrirtækið hefur verið í teljandi vandræðum á árinu.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen hefur Ørsted selt kanadíska fjárfestingafélaginu Brookfield um 12,45% hlut í fjórum vindmylluverkefnum á tæpa 16 milljarða danskra króna sem samsvarar um 318 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Um er að ræða verkefnin Hornsea 1, Hornsea 2, Walney Extension and Burbo Bank Extension sem sameiginlega framleiða um 3,5 gígawött af orku en félögin fjögur eru öll skráð í Bretlandi.
„Við fengum því að vera fara í samstarf með Brookfield, sem hefur verið leiðandi fjárfestingaraðili í endurnýtanlegri orku, í þessum fjórum verkefnum sem eru á mikilvægasta markaði Ørsted,“ segir Mads Nipper í tilkynningu frá félaginu.
Síðasta haust þurfti Ørsted að afskrifa 26,8 milljarða danskra króna eða um 546 milljarða íslenskra króna eftir að vindmylluverkefni fyrirtækisins í Bandaríkjunum fór forgörðum.
Fjárfestar voru að vonast eftir meiri ró yfir rekstri félagsins í ár en fyrirtækið þurfti að afskrifa 3,9 milljarða danskra króna eða um 79 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins á öðrum ársfjórðungi.
Tap félagsins á fyrri helmingi ársins nam 1,7 milljörðum danskra króna. Ørsted seldi fagfjárfestum hluti í vindmylluverkefnunum fyrr á árinu og stendur eignarhlutur félagsins í verkefnunum fjórum í 37,55% eftir viðskiptin við Brookfield.
Samkvæmt Børsen er salan af brýnni nauðsyn sökum fjárhagsstöðu félagsins en samkvæmt krísuáætlun félagsins sem var kynnt í febrúar er stefnt að því að selja eignir fyrir um 100 milljarða danskra króna.