Ørsted, stærsta orku­fyrir­tæki Dan­merkur, hefur ráðist í að selja eignar­hluti í vind­myllu­verk­efnum sínum við strendur Bret­lands­eyja en orku­fyrir­tækið hefur verið í teljandi vand­ræðum á árinu.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen hefur Ørsted selt kana­díska fjár­festingafélaginu Brook­field um 12,45% hlut í fjórum vind­myllu­verk­efnum á tæpa 16 milljarða danskra króna sem sam­svarar um 318 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Um er að ræða verk­efnin Horn­sea 1, Horn­sea 2, Wal­n­ey Extension and Burbo Bank Extension sem sam­eigin­lega fram­leiða um 3,5 gígawött af orku en félögin fjögur eru öll skráð í Bret­landi.

„Við fengum því að vera fara í sam­starf með Brook­field, sem hefur verið leiðandi fjár­festingaraðili í endur­nýtan­legri orku, í þessum fjórum verk­efnum sem eru á mikilvægasta markaði Ørsted,“ segir Mads Nipper í til­kynningu frá félaginu.

Síðasta haust þurfti Ørsted að af­skrifa 26,8 milljarða danskra króna eða um 546 milljarða ís­lenskra króna eftir að vind­myllu­verk­efni fyrir­tækisins í Bandaríkjunum fór for­görðum.

Fjár­festar voru að vonast eftir meiri ró yfir rekstri félagsins í ár en fyrir­tækið þurfti að af­skrifa 3,9 milljarða danskra króna eða um 79 milljarða ís­lenskra króna á gengi dagsins á öðrum árs­fjórðungi.

Tap félagsins á fyrri helmingi ársins nam 1,7 milljörðum danskra króna. Ørsted seldi fag­fjár­festum hluti í vind­myllu­verk­efnunum fyrr á árinu og stendur eignar­hlutur félagsins í verk­efnunum fjórum í 37,55% eftir við­skiptin við Brook­field.

Sam­kvæmt Børsen er salan af brýnni nauð­syn sökum fjár­hags­stöðu félagsins en sam­kvæmt krísuáætlun félagsins sem var kynnt í febrúar er stefnt að því að selja eignir fyrir um 100 milljarða danskra króna.