Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice ehf. sem rekur þrjá fjarskiptasæstrengi til Evrópu sem nær öll netumferð Íslands fer í gegnum, er í ítarlegu viðtali í sérblaðinu Iðnþing 2025 sem kom út í síðustu viku. Þar ræðir hann m.a. um helstu atriðin sem snúa að fjarskiptaöryggi landsins og áhyggjur af mögulegum skemmdarverkum á sæstrengjum í Eystrasaltinu.

Þorvarður segir að skýjavæðingin gleymist oft í umræðunni um fjarskiptaöryggi. Mjög stór hluti af upplýsingatækniinnviðum íslenskra fyrirtækja og stofnana séu í raun komnir yfir í skýið, t.d. í gagnaverum aðila á borð við Amason Web Services (AWS) og Microsoft Azure í Amsterdam eða Dublin.

„Skýið fyrir okkur á Íslandi er í raun og veru gagnaver í Evrópu. Þegar við erum t.d. að nota Microsoft Teams til að tala saman þá á það samtal sér í raun stað í gagnveri, líklega í Amsterdam eða Dublin, þó við séum að tala saman milli húsa í Reykjavík.“

Annar mikilvægur þáttur sé hvað upplýsingatæknikeðjan er orðin löng og flókin. Upplýsingatæknikerfi séu í mörgum tilfellum háð öðrum kerfum og erfitt geti verið að átta sig á heildarmyndinni hvernig þau spila saman.

„Einn þjónustuveitandi notar yfirleitt þjónustu frá einhverjum öðrum þjónustuaðila sem getur verið að nota sér þjónustu frá enn öðrum aðila og svo framvegis. Þannig getur myndast mjög löng upplýsingatæknikeðja af þjónustum. Mögulega er nóg að ein krítísk þjónusta í langri keðju sé hýst í gagnaveri erlendis sem myndi þá brotna ef útlandasambandið dettur niður.“

Fjölbreytileikinn besta vörnin

Þegar öllu er á botninn hvolft telur Þorvarður að öryggi í fjarskiptum sé byggt á því að hafa fjölbreytileika, bæði þegar kemur að fjölda sæstrengja og mismunandi tækni.

„Í breyttum heimum sem er svolítið flókinn getur verið að það sé ekki nóg að hafa bara eina leið heldur margar. Við erum ekki með einn streng heldur þrjá. Þú verður svo kannski að hafa mismunandi tækni. Það er ekki nóg að hafa bara ljósleiðara, heldur er skynsamlegt að hafa gervihnattaleiðir í lofti líka til að geta annað mikilvægustu samskiptum okkar við umheiminn. Það þarf svo kannski margar gervihnattaleiðir en ekki eina. Öryggið er í raun byggt upp með fjölbreytileikanum.“

Um miðjan febrúar samþykkti ríkisstjórnin tillögu forsætisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um að fjármagna varafjarskiptaleið við útlönd um gervihnetti með það í huga að tryggja lágmarks netsamband ómissandi samfélagsinnviða við útlönd, fari svo að fjarskiptasamband um alla sæstrengi við Ísland rofni á sama tíma. Farice hefur tekið þátt í þróun og útfærslu umræddrar varaleiðar fjarskipta um gervihnetti. Miðað er við að kerfið verði tilbúið til notkunar fyrir fyrstu notendur í mars nk.

Hvað eldfjallavirkni varðar þá bendir Þorvarður aftur á að kerfi Farice sé hannað til að eiga við náttúrulegar ógnir á borð við eldgos, jökulflóð, aurskriður og stormviðvaranir.

„Við erum alltaf að eiga við þetta og erum bara nokkuð í góð í að bregðast við þessum ógnum. Við gerum þetta með fjölbreytileikanum, með því að hafa margar leiðir. Við erum með þrjá sæstrengi til landsins en svo frá hverjum lendingarstað á Íslandi erum við með tvær til þrjár leiðir inn í gagnaverin sjálf.

Eldgos eru sem betur fer ekki mjög algeng í sjó. Þau geta auðvitað runnið yfir landleiðir og skemmt ljósleiðarlagnir á landi, en þá erum við aldrei háð einhverri einni leið á landi heldur erum við með margar leiðir. Aftur, fjölbreytileikinn, það er hann sem skapar öryggið.“

Ljósleiðaranet Farice ásamt afhendingarstöðum.

Svigrúm fyrir gagnaversiðnaðinn að stækka

Eins og þekkt er hefur gagnaversiðnaður stækkað umtalsvert hér á landi á undanförnum fimmtán árum. Fyrsta gagnaverið á Íslandi, Thor Data Center í Hafnarfirði sem tilheyrir í dag atNorth, tók til starfa árið 2010.

Þorvarður fagnar uppbyggingu gagnaversiðnaðarins hér á landi og segir hana hafa haft jákvæð áhrif á útlandasambönd Íslands, m.a. þegar kemur að hagkvæmni rekstrar á fjarskiptasæstrengjum til landsins.

„Við þurfum þrjá strengi, ekki út af gagnamagninu heldur örygginu. Strengirnir bera miklu meiri umferð en þörf er á fyrir íslenskt samfélag. Það er því töluverð bandvídd í strengjunum sem hægt er að nýta til þess að gera Ísland enn fýsilegra fyrir gagnaversiðnaðinn. Við höfum því tök á að taka við nýjum viðskiptavinum sem á móti myndu hjálpa okkur að greiða fyrir þessa dýru innviði sem við þurfum á að halda.“

Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Þorvarð í sérblaðinu Iðnþing 2025.