Skatttekjur sveitarfélaga hafa aukist til muna síðastliðin ár en staðgreiðsla til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs á fyrstu átta mánuðum ársins 2024, í samanburði við sama tímabil í fyrra, hefur aukist um 9,07%.
Um er að ræða hækkun úr 217 milljörðum króna í 236,7 milljarða króna.
Launahækkanir leika stórt hlutverk í auknum skatttekjum sveitarfélaganna en á síðustu árum hefur útsvarsprósenta einnig hækkað, nú síðast um 0,23%, með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins til að mæta kostnaði sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk.
Vinnandi einstaklingur með laun undir 1,2 milljónum á mánuði borgar í dag meira til sveitarfélags en ríkis og því ætti launafólk að fylgjast vel með hvernig sveitarfélög fara með þeirra fé.
Útsvarstekjur sveitarfélaganna á íbúa hækkuðu um 8 til 14% milli áranna 2022 til 2023. Þar af er mesta hækkunin milli ára hjá Reykjanesbæ en útsvarstekjur af hverjum íbúa fóru úr 629,7 þúsund krónum í 714,7 þúsund krónur.
Þrátt fyrir að vera með mestu hækkunina milli ára var Reykjanesbær það sveitarfélag sem var með lægstu útsvarstekjur af hverjum íbúa en skilaði engu að síður jákvæðu veltufé upp á tæpa 4 milljarða króna árið 2023.
Ef tímabilið 2010 til 2023 er skoðað sést að útsvarstekjur af hverjum íbúa hafa meira en tvöfaldast í öllum stærri sveitarfélögum. Í Reykjavíkurborg hafa útsvarstekjur af hverjum íbúa hækkað um 142%, í Kópavogi 141%, í Garðabæ 178% og um 138% í Seltjarnarnesbæ svo dæmi séu tekin.
Útsvarstekjur virðast þróast nokkurn veginn í takt við launavísitölu en frá 2010 hefur ársmeðaltal vísitölu heildarlauna hækkað um 121% hjá starfsmönnum á almennum vinnumarkaði en 140% hjá opinberum starfsmönnum, samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands.
Þó að rekstur sveitarfélaganna hafi verið misjafn ár frá ári má sjá varhugaverða þróun víða ef lengra tímabil er skoðað. Helst má þar nefna fjölgun stöðugilda umfram íbúafjölgun með tilheyrandi launakostnaði.
Frá árinu 2010 hefur fjöldi stöðugilda hjá nær öllum sveitarfélögunum vaxið hraðar en íbúafjöldi en slíkt verður að teljast ósjálfbært til lengdar. Kópavogsbær er eina sveitarfélagið þar sem sjá má hægari fjölgun stöðugilda en íbúa.
Stöðugildum hjá Kópavogsbæ hefur fjölgað um 12,3% frá árinu 2010 en íbúafjöldi hefur aukist um 30% á sama tímabili.
Á milli áranna 2022 og 2023 fækkaði stöðugildum hjá bænum um 3,2% samhliða því að íbúum fjölgaði um 1,5%.
Áskrifendur geta nálgast greiningu Viðskiptablaðsins á fjármálum sveitarfélaganna hér.