Forsvarsmenn átta íslenskra tæknifyrirtækja sem sérhæft hafa sig í nýsköpun og þjónustu fyrir sjávarútveginn lýsa yfir miklum áhyggjum með frumvarp ríkisstjórnarinnar um að tvöfalda veiðigjöld.
Í sameiginlegri umsögn fyrirtækjanna átta segir að verði frumvarpið að lögum geti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir rekstrargrundvöll og framtíð þeirra hérlendis.
Fyrirtækin sem um ræðir eru KAPP ehf., Kælismiðjan Frost, Micro, Ístækni ehf., Samey Robotics, KAPP Skaginn ehf. og Vélfag.
„Á Íslandi hefur skapast verðmæt þekking og öflugt umhverfi nýsköpunar fyrir sjávarútveginn, sem hefur leitt af sér gríðarlega verðmætasköpun fyrir greinina og aukið samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Þessi fyrirtæki eru með þeim fremstu í heiminum vegna þess nána samstarfs sem félögin hafa átt við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki við þróun lausna, sem síðan eru seldar um allan heim og búa þá til enn meiri verðmæti í formi útflutningstekna og fjölbreyttra starfa við þjónustu og tækniþróun um allt land,“ segir í umsögn fyrirtækjanna.
Í umsögninni segir jafnframt að lausnirnar sem þessi fyrirtæki selja séu oft dýrar fjárfestingarvörur sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa tileinkað sér til að auka virði afurða, bæta rekstrarafkomu og samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum.

„Í fyrsta lagi leggjum við til að stjórnvöld greini betur áhrif þessara breytinga á greinina og hver áhrif þeirra eru á verðmætasköpun, framtíðarfjárfestingaþörf og getu, og þá hver hugsanleg áhrif breytingin hefur á afleidd störf í sjávarútvegi, eins og þau fyrirtæki sem við rekum, og hver heildaráhrifin eru á skattsporið.
Í öðru lagi leggjum við til að stjórnvöld vinni að tillögum að mótvægisaðgerðum sem hafa það að markmiði að efla fiskvinnslu og tækniþróun,“ segir í umsögn fyrirtækjanna.
Forsvarsmennirnir segja að um sé ræða hvata til að fjárfesta í tæknilausnum sem auka nýtingu, gæði, meðhöndlun, skilvirkni og verðmæti afla sem berst á land og takmarki þann afla sem fluttur er óunninn úr landi.
„Í dag nýta flest tæknifyrirtæki þær skattaívilnanir sem eru í boði fyrir þróunarverkefni, sem hafa skilað góðum árangri og eflt nýsköpun, en svona mótvægisaðgerðir væru fyrst og fremst ætlaðar að hjálpa fiskvinnslum að takast á við hækkun veiðigjalda og koma í veg fyrir að mikilvæg þekking og störf hverfi úr landi.
Við erum tilbúnir að útvega þau gögn og þá vinnu sem óskað er eftir til að farsæl lausn finnist og dýrmæt þekking í vinnslu og þróun glatist ekki úr landi.“