Sem kunnugt er hafnaði Landsréttur í dag kröfu ríkissáttasemjara um afhendingu kjörskrár Eflingar vegna miðlunartillögu sem hann lagði fram í lok janúar.  Með þessu snéri Landsréttur við ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur, sem komst að þeirri niðurstöðu að Eflingu bæri að afhenda ríkissáttasemjara félagatal sitt. Sú flókna staða er samt sem áður uppi að miðlunartillagan er lögmæt en Efling hyggst ekki láta félagsmenn kjósa um hana.

Eftir úrskurð Landsréttar lagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari það til við Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að hann stígi til hliðar og annar sáttasemjari verði skipaður í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Þetta þykir Páli, sem er fyrrverandi útvarpsstjóri og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskiljanleg niðurstaða eins og hann skrifar í færslu á Facebook. En þar segir hann:

Óskiljanlegt - og líklega heimildarlaust - að ríkissáttasemjari semji sig frá þeirri skyldu sinni að láta reyna á jafn mikilvægt atriði fyrir æðsta dómstóli landsins. Og nú vill hann segja sig frá sjálfri deilunni líka. Það getur hann varla gert nema með því að segja segja sig einfaldlega frá embættinu.