Svör þingmanna Samfylkingarinnar í könnun Viðskiptablaðsins gefa ekki skýra mynd af því hver afstaða þingflokksins er til þess hvort heimila eigi innlendar vefverslanir með áfengi.

Oddný Harðardóttir eini þingmaðurinn sem gaf upp afgerandi afstöðu en hún segist andvíg breytingunum.

Svör þingmanna Samfylkingarinnar í könnun Viðskiptablaðsins gefa ekki skýra mynd af því hver afstaða þingflokksins er til þess hvort heimila eigi innlendar vefverslanir með áfengi.

Oddný Harðardóttir eini þingmaðurinn sem gaf upp afgerandi afstöðu en hún segist andvíg breytingunum.

Kristrún svaraði ekki

Viðskiptablaðið sendi eftirfarandi fyrirspurn á alla þingmenn: „Ert þú sem þingmaður almennt hlynntur eða andvígur því að heimila innlendum einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu?“ Jafnframt var spurt um afstöðu til núverandi fyrirkomulags áfengissölu með einkaleyfi ÁTVR. Svör bárust frá 56 af 63 þingmönnum.

Ekki fékkst svar frá Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að forysta Samfylkingarinnar horfi til þess að mótuð verði stefna innan flokksins á landsfundi sem fer fram um miðjan nóvember.

Logi: Afstaða mín verður að koma í ljós

Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að sér finnist ekki augljóst svar við spurningum blaðsins „og svara því hvorki með já né nei“. Hann segir sjálfsagt að þingið ræði fyrirkomulag áfengissölu af yfirvegun enda hafi margt breyst í samfélaginu síðan áfengislögunum var síðast breytt.

Nú sé deild um hvað sé lögmætt og hvað ekki í áfengissölu á netinu og telur Logi þá stöðu vera óboðlega. Lögin og framkvæmdin þurfi að vera skýr.

Hvað varðar eigin afstöðu þá ætli hann einfaldlega að hlusta með opnum hug á sjónarmið sem koma upp og lesa allar umsagnir við frumvarp dómsmálaráðherra og annarra mála sem gætu verið lögð fram.

„Ég hef aldrei útilokað að styðja afnám einkasölu ríkisins á áfengissölu en verði það gert vill ég að það gerist að undangenginni vandlegri umræðu og að farið verði varlega. Og það gert með vel skilgreindum og ströngum skilyrðum,“ segir í skriflegu svari Loga.

„Það mun því bara koma í ljós, nái þetta tiltekna mál að komast til atkvæðagreiðslu, hver afstaða mín verður.“

Logi Einarsson taldi sig ekki geta gefið upp einfalt svar við fyrirspurninni.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Þórunn ánægð með einkaleyfi ÁTVR

Þórunn Sveinbjarnardóttir segir að Samfylkingin hafi um langt árabil stutt núverandi fyrirkomulag smásölu áfengis með einkaleyfi ÁTVR og að sú afstaða byggi á lýðheilsusjónarmiðum. Sjálf kveðst hún ánægð með það fyrirkomulag.

„Styr hefur staðið um netsölu áfengis hér á landi og því hefur verið haldið fram að hún sé ólögleg. ÁTVR hefur einkarétt á smásölu áfengis til almennings en fólk getur flutt áfengi inn frá útlöndum til einkaneyslu. Innan EES-svæðisins er svo leyfilegt að selja áfengi í netsölu yfir landamæri,“ segir Þórunn í skriflegu svari.

Þórunn er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Hún bendir á að nefndin hafi í júní síðastliðnum ákveðið að taka netsölu áfengis á Íslandi til athugunar. Sú skoðun standi enn yfir og á þessari stundu sé ekki hægt að segja til um hver niðurstöðu hennar verður.

Þórunn Sveinbjarnardóttir segir að Samfylkingin hafi um langt árabil stutt núverandi fyrirkomulag smásölu áfengis.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Jóhanni Páli geldur varhug við óheftri netverslun

Jóhann Páll Jóhannsson segist í megindráttum vera hlynntur einkasölufyrirkomulaginu. Hann hafi hins vegar stutt ákveðna rýmkun regluverksins, t.d. að heimila sölu á framleiðslustað. „Geld hins vegar varhug við óheftri netverslun.“

Dagbjört Hákonardóttir, sem tók sæti á Alþingi í september 2023 eftir að Helga Vala Helgadóttir hætti á þingi, segir að það sé að hennar mati ekki hafið yfir athugun að meta hvort einkasala ÁTVR sé sú leið sem sé best til þess fallin að annast sölu áfengis í landinu.

„Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að aukið framboð eykur neyslu. Framboð á áfengi og umhverfi áfengissölu hefur tekið algjörum stakkaskiptum á nokkrum misserum. Þarna skortir á stefnumótun,“ segir Dagbjört.

Fjallað er ítarlega um könnunina í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina og svör einstakra þingmanna hér.