Össur er nýr bakhjarl Gulleggsins, stærstu frumkvöðlakeppni Íslands en Hildur Einarsdóttir, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar og Ásta Sóllilja Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups undirrituðu samning þess efnis á dögunum.
„Nýsköpun og frumkvöðlahugsun hefur drifið okkur áfram frá stofnun og á ríkan þátt í árangri fyrirtækisins á alþjóðavísu. Það er okkur sönn ánægja að styðja við íslenska frumkvöðla sem án efa eiga eftir að auðga íslenskt atvinnulíf í framtíðinni,“ segir Hildur Einarsdóttir, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar.
Gulleggið, sem haldið hefur verið af KLAK - Icelandic Startups síðan árið 2008, er eitt af flaggskipum KLAK og hefur fest sig í sessi sem ein vinsælasta frumkvöðlakeppni á Íslandi.
„Við hjá KLAK erum afar ánægð að svona öflugt nýsköpunarfyrirtæki eins og Össur sem er leiðandi á sínu sviði á heimsvísu sé nýr bakhjarl Gulleggsins og styðji þannig við frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref,” segir Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups.