Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, segir að Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri-grænna beri alla ábyrgð á því að ríkisstjórn slitnaði í dag.

Össur sagði þetta í pistli nú í kvöld.

Svandís bjó til mjög einfalt plott sem fólst í að slíta ríkisstjórninni á hentugum tíma fyrir VG og keyra svo í kosningar undir því flaggi að VG hefði steypt undan Sjálfstæðisflokknum. Þannig ætlaði hún að krafsa til sín atkvæði af vinstri vængnum í nægum mæli til að bjarga ræflinum sem eftir er af VG. Þetta var í sjálf sér ágætis plan og hefði kanski getað bjargað VG fyrir horn.

Það var hins vegar alger afleikur hjá henni að storka Bjarna með því nánast að núa þessu plani upp í nasir hans og lýsa því yfir ásamt Mumma varaformanni að VG ætlaði auk þess að leggjast þvert gegn þeim málum tveimur sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur ofuráherslu á, innflytjendamálin og orkumál.

Össur Skarphéðinsson og Eiríkur Bergmann Einarsson, álitsgjafi Ríkisútvarpsins og fyrrum frambjóðandi Samfylkingarinnar.

Við þessar aðstæður átti Bjarni í reynd engan kost annan en slíta ríkisstjórninni strax – einsog ég rökstuddi vel í Grjótkastinu, hlaðvarpi Björns Inga, sl. föstudag.

Yfirlýsingar Svandísar knúðu í reynd Bjarna til að hrista loksins af sér slyðruorðið, taka frumkvæðið – og slíta stjórninni á undan henni. Þetta var grófur afleikur hjá Svandísi. Hún virðist hafa verið slegin algerri skákblindu, því í stöðunni átti Bjarni engan annan kost en rjúfa stjórnarsamstarfið. Svandís hrinti honum út í þá ákvörðun. Hann hefur þá fullkomnu afsökun að yfirlýsingar nýs formanns VG gerðu hana einfaldlega óstjórntæka – og þarmeð hennar flokk.

Össur Skarphéðinsson sat með Svandísi í ríkisstjórn árin 2009 til 2013. Hann þekkir hana því vel. En hann þekkti líka föður hennar.

Össur og Svavar Gestsson voru miklir erkifjendur í Alþýðubandalaginu og börðust meðal annars hatramlega um hvort Alþýðubandalagið, forveri Sósíalistaflokks Íslands og Kommúnistaflokks Íslands, ætti að gera upp fortíð sína við Stalín, Lenín og samskiptin við ráðstjórnarríkin.

Hér má lesa pistil Össurs í heild sinni.

Afleikur Svandísar

Svandís Svavarsdóttir leiðir flokk sem er í tilvistarhættu, og allsendis óvíst er að nái inn á þing í kosningunum sem senn verður boðað til. Að flokki hennar er sótt úr þremur áttum, frá Samfylkingu sem hefur reytt talsverðan hluta af fylgi VG til sín, Sósíalistum sem munu efalítið ná manni á þing eftir að VG gafst upp á flestum prinsipum sínum, og Flokki fólksins.

Svandís bjó til mjög einfalt plott sem fólst í að slíta ríkisstjórninni á hentugum tíma fyrir VG og keyra svo í kosningar undir því flaggi að VG hefði steypt undan Sjálfstæðisflokknum. Þannig ætlaði hún að krafsa til sín atkvæði af vinstri vængnum í nægum mæli til að bjarga ræflinum sem eftir er af VG. Þetta var í sjálf sér ágætis plan og hefði kanski getað bjargað VG fyrir horn.

Það var hins vegar alger afleikur hjá henni að storka Bjarna með því nánast að núa þessu plani upp í nasir hans og lýsa því yfir ásamt Mumma varaformanni að VG ætlaði auk þess að leggjast þvert gegn þeim málum tveimur sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur ofuráherslu á, innflytjendamálin og orkumál. Við þessar aðstæður átti Bjarni í reynd engan kost annan en slíta ríkisstjórninni strax – einsog ég rökstuddi vel í Grjótkastinu, hlaðvarpi Björns Inga, sl. föstudag.

Yfirlýsingar Svandísar knúðu í reynd Bjarna til að hrista loksins af sér slyðruorðið, taka frumkvæðið – og slíta stjórninni á undan henni. Þetta var grófur afleikur hjá Svandísi. Hún virðist hafa verið slegin algerri skákblindu, því í stöðunni átti Bjarni engan annan kost en rjúfa stjórnarsamstarfið. Svandís hrinti honum út í þá ákvörðun. Hann hefur þá fullkomnu afsökun að yfirlýsingar nýs formanns VG gerðu hana einfaldlega óstjórntæka – og þarmeð hennar flokk.

Svandís leysti Bjarna í reynd niður úr fleiri en einni snöru með afleik sínum. Hún gaf honum gilda ástæðu til að slíta ríkisstjórninni án þess að nokkur geti ásakað hann um skort á úthaldi, eða tækifærisstefnu. Dagar hans sem formanns voru nánast taldir, og allir – líka hann sjálfur – bjuggu sig undir formannsskipti.

Þessi snöggu umskipti gera hins vegar að verkum að hann getur haldið áfram sem formaður – einsog hann langar til – og mun leiða flokkinn gegnum kosningar. Vitaskuld fær Sjálfstæðisflokkurinn meira en þau 12-13 prósent sem kannanir síðustu mánuða hafa sýnt hann hafa. Það mun Bjarni túlka sem varnarsigur – og sitja sem fastast. Svandís hefur því afrekað það að verða björgunarbelti Bjarna Benediktssonar.

Henni má svo einnig þakka þá sögulegu staðreynd að Bjarna hefur nú tekist að slá fyrra Íslandsmet sitt um skammlífi forsætisráðherra. Hvort feilspor Svandísar leiðir svo til þess að hún verði skammlífasti formaður í sögu VG á svo eftir að koma í ljós, en atburðarrásins sem hún hrinti af stað eykur ekki líkur á að VG nái manni á þing.

Ekki græt ég mig í svefn útaf því...