Íþróttasamband fatlaðra og Össur á Íslandi hafa framlengt yfir þrjátíu ára samstarf sitt um fjögur ár til viðbótar. Nýr samningur gildir til og með Paralympics-leikunum í Los Angeles árið 2028.
Jón Björn Ólafsson framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF, Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF og Sveinn Sölvason forstjóri Emblu Medical, skrifuðu undir nýja samninginn í höfuðstöðvum félagsins við Grjótháls í Reykjavík.
„Samstarfið við Össur hefur verið mikið afbragð í gegnum tíðina. Sjálfur hóf ég störf hjá ÍF árið 2008 og hef allar götur síðan átt í miklu og góðu samstarfi við fulltrúa Össurar. Nýr samningur til 2028 er mikið ánægjuefni fyrir íþróttastarfsemi fatlaðra í landinu,“ sagði Jón Björn Ólafsson framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF.
Össur var stofnað á Íslandi árið 1971 og er í dag alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki sem hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks.
„Við erum gríðarlega stolt af því að framlengja samstarfið við Íþróttasamband fatlaðra og leggja okkar af mörkum til að bæta aðgengi fatlaðra að íþróttum og styðja við framgang íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. Samstarfið hefur staðið yfir í rúma þrjá áratugi sem ber því vitni um árangursríka samvinnu. Við hlökkum til næstu ára með hápunktinum á Paralympics í Los Angeles, þar sem íþróttafætur frá Össuri verða áberandi á hlaupabrautinni,“ sagði Sveinn Sölvason, forstjóri Emblu Medical.