Eldgosið við Sundhnúksgíga er fjórða eldgosið á Reykjanesi á innan við þremur árum. Gosið sem hófst að kvöldi mánudagsins 18. desember var þó nær byggð og töluvert stærra.
Svo virðist sem innviðir ætli að sleppa, þó ákveðin óvissa sé um framhaldið, sérstaklega hvað varðar orkuverið í Svartsengi. Þannig hefur HS Orka vakið athygli á því að hraunið gæti nálgast heita- og kaldavatnslagnir til Reykjanesbæjar, þar á meðal svokallaða Njarðvíkuræð.
Varnarviðbrögðum er því ekki lokið en samkvæmt upplýsingum frá HS Orku verður kortlagt hvaða kafla æðarinnar er hægt að verja strax. Til skoðunar er að grafa hluta hennar í jörðu en talið er að það taki að lágmarki átta vikur.
Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku – samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, segir náttúruhamfarirnar á Suðurnesjum á liðnum mánuðum hafa dregið mikilvægi innviða og orkuöryggis mjög skýrt fram.
„Á þessu svæði vill þannig til að það er nánast allt undir, hitaveita, raforka og kalt vatn fyrir 30.000 manna byggð svo það er gríðarlega mikilvægt að vel takist til að halda órofinni starfsemi eins og unnt er. Fyrirtækin á svæðinu, HS Veitur og HS Orka, hafa átt í nánu samstarfi við almannavarnir, stjórnvöld og viðkomandi sveitarstjórnir. Það samstarf hefur lagt grunn að þeim vörnum sem þarna hefur verið komið upp sem munu vonandi skila árangri ef á reynir.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.