Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir óþolandi að útgreidd laun til æðstu embættismanna þjóðarinnar voru hærri en lögum samkvæmt og að við því verður að bregðast. En fyrr í dag var tilkynnt að síðustu þrjú ár hafa æðstu embættismenn þjóðarinnar fengið of há laun greidd miðað við núgildandi lög um laun þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekna embættismanna vegna reiknivillu. En fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið ákvörðun um að leiðrétta mistökin og er aðilum málsins gert að endurgreiða uppsafnaða ofgreiðslu launa.

Sjá einnig: Ráðamenn fengið ofgreidd laun í þrjú ár

Dómarafélag Íslands mótmælti ákvörðuninni harðlega á Facebook - síðu formanns félagsins, Kjartani Bjarna Björgvinssonar dómara við Héraðsdóm. Félagið segir aðgerðina fela í sér atlögu framkvæmdavaldsins að dómsvaldinu sem á sér ekki hliðstæðu í íslensrki réttarsögu.

„Þessi aðgerð setur alla sem reka mál á hendur ríkinu í þá stöðu að eiga von á því að framkvæmdavaldið geti lækkað laun dómara eftir eigin geðþótta. Þar með eru borgararnir sviptir réttlátri málsmeðferð og því að geta borið mál sín undir sjálfstæðan og óvilhallan dómstól í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu“ segir í færslu Kjartans.

Í samtali við Vísi segir Kjartan að dómarar muni að óbreyttu leita réttars síns vegna málsins og vísar hann í skýrt dómafordæmi um að launþegum beri ekki að endurgreiða ofgreidd laun hafi þeir þegið þau í góðri trú.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, ritaði Facebook - færslu þar sem hann leiðréttir málflutning Dómarafélagsins. Þá segir hann fráleitt að ræða um geðþóttaákvörðun fjármálaráðherra í þessu samhengi þar sem fjárhæðin er lögákveðin.

„Að halda því fram, líkt og formaður dómarafélagsins gerir, að þetta einfalda mál snúist um rétt borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum stenst augljóslega enga skoðun." skrifar Bjarni.

„Það snýst miklu frekar um þetta: Fólkið í landinu ætti ekki að þurfa að hlusta á að það sé flókið fyrir efsta lag ríkisins, æðstu embættismennina, að skila því sem ofgreitt var úr opinberum sjóðum. Annað væri hrikalegt fordæmi og er ekkert minna en siðferðisbrestur."