Flutgfélagið Atlanta hefur verið með vel yfir 100 Boeing 747 vélar í rekstri í gegnum árin.
„Í gegnum tíðina hafa margir reynt að lýsa yfir dauða 747-vélanna en þetta eru einstakar vélar,” segir Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Atlanta.
„Það er engin vél til sem getur gert nákvæmlega það sama og Boeing 747-400 fraktvélin. Hún ber 120 tonn og er mjög langdræg. Nefhurðin, sem hægt er að opna til að taka frakt inn, er einstök og nauðsynleg fyrir flutninga á ákveðnum hlutum.“
„Besta dæmið um það hversu góðar og öflugar þessar vélar eru er að við erum enn að bæta þeim í flotann. Við erum með leigusamninga sem ná út 2027 og 2028 og náum ekki að anna eftirspurn."
„Þess utan er erfitt að kaupa nýjar vélar vegna þess hversu framleiðslu þeirra hefur seinkað, eftirspurn er mikil og afhendingartími langur. Í þessu sambandi get ég nefnt seinkanir á framleiðslu Boeing 777-8F, sem átti að vera að koma á markað en mun ekki koma fyrr en 2028-2029. Svipaða sögu er að segja af Airbus 350F. Einnig eru margra ára seinkanir á breytingum á vélum úr farþegavélum í fraktvélar sem einungis ýtir undir eftirspurn á 747 á komandi árum.”