Hagnaður stærstu fjár­festinga­banka Banda­ríkjanna, Bank of America, JP­Morgan Chase, Gold­man Sachs, Citigroup, Morgan Stanl­ey og Wells Far­go á fyrsta árs­fjórðungi kom greiningar­aðilum vestan­hafs í opna skjöldu.

Allir bankarnir skiluðu betri af­komu en spár gerðu ráð fyrir en sam­kvæmt The Wall Street Journal má rekja af­komu bankanna m. a. til ó­væntrar aukningar í fjár­festinga­banka­starf­semi vestan­hafs.

Tekjuaukning Bank of America um 38%

Saman­lagður hagnaður bankanna á fyrsta árs­fjórðungi nam 35,63 milljörðum Banda­ríkja­dala sem sam­svarar um 4.892 milljörðum króna á gengi dagsins. Mun það vera um 3% minni hagnaður en á sama tíma­bili í fyrra. Tekjur bankanna jukust þó 4% milli ára og námu 139 milljörðum Banda­ríkja­dala.

Af­koma af fjár­festinga­banka­starf­semi hefur þó ekki verið betri frá því að seðla­banki Banda­ríkjanna byrjaði að hækka stýri­vexti árið 2022 en háir vextir hafa haft mjög nei­kvæð á­hrif á fjár­festinga­banka­starf­semi síðast­liðin ár.

Tekjur Gold­man Sachs og Citigroup af fjár­festinga­banka­starf­semi jukust um 32% á fyrsta árs­fjórðungi í saman­burði við sama tíma­bil í fyrra. Tekjur Bank of America af fjár­festinga­banka­starf­semi jukust um 38% á meðan tekjur Gold­man Sachs jukust um 24%.

Þrátt fyrir þessa gríðar­legu aukningu eru tekjur af fjár­festinga­banka­starf­seminni lægri en í venju­legri ár­ferði en WSJ segir að þetta sýna þó að for­stjórar fyrir­tækja og vogunar­sjóða séu byrjaðir að treysta markaðinum aftur.

Metútgáfa skuldabréfa í fjárfestingaflokki

Jane Fraser, for­stjóri Citigroup, sagði á síma­fundi með greiningar­aðilum að endur­koman í fjár­festinga­banka­starf­semi hafi gerst á ógnar­hraða og að met­út­gáfa á skulda­bréfum í fjár­festinga­flokki hafi spilað þar stóran þátt.

Frumút­boð á fyrsta árs­fjórðungi tóku einnig við sér á­samt þjónustu í tengslum við sölu­tryggingu.

Staðan er þó sögð við­kvæm, sér í lagi vegna ó­vissu í kringum al­þjóða­stjórna­málin. Í upp­gjöri JP­Morgan Chase er gert ráð fyrir að skulda­bréfa­út­gáfa muni dragast veru­lega saman þegar líður á árið.