Þó heimshagkerfið sé enn vel yfir hættumörkum kreppu samkvæmt nýrri efnahagsspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) þá er ekki hægt að segja það sama um Bandaríkin. AGS telur um 40% líkur á því að keppa skelli á í Bandaríkjunum á þessu ári.
Ef til vill er réttara að tala um líkur á efnahagslegum samdrætti (e. recession) frekar en kreppu (e. depression). Mörkin þarna á milli eru reyndar ekki alltaf ljós, þ.e. hvað samdrátturinn þarf að vera mikill svo að hægt sé tala um kreppu. Yfirleitt er talað um kreppu ef þjóðarframleiðsla dregst saman að raunvirði tvo ársfjórðunga í röð.
Þetta mat AGS mögulegum sæmdrætti í Bandaríkjunum er hófstillt sé miðað við aðra greinendur í Bandaríkjunum. JPMorgan Chase telur 65% líkur á samdrætti í Bandaríkjunum, hagfræðingurinn David Rosenberg metur líkurnar 85% og Torsten Slok, aðalhagfræðingur Apollo Global Management, telur líkurnar 90%.
Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka, segir að samkvæmt grunnsviðsmynd AGS séu litlar líkur á kreppu hjá iðnríkjum.
„Ég held að sé alveg sanngjarnt mat á þessum tímapunkti,“ segir Hafsteinn. „Þessar vendingar í tollastríði Bandaríkjanna eru nýskeðar og við höfum enn sem komið er frekar séð þær koma fram í væntingakönnunum en í áþreifanlegum gögnum um landsframleiðslu, kaupmátt og atvinnustig.
Þetta er strax að verða gömul tugga, en það er einfaldlega mjög mikil óvissa um hvaða áhrif þessar breytingar munu hafa. Áhrifin munu líklega skýrast í hagtölum sem birtast á næstu mánuðum, en þangað til línur skýrast er er ábyrgt hjá sjóðnum að spá ekki öllu illu.”
Hafsteinn bendir á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taki skýrt fram að áhættan í spánni sé niður á við, og þótt grunnsviðsmyndin hljóði ekki upp á samdrátt í iðnríkjum, þá rúmast hættan á samdrætti því miður í líkindadreifingunni.
„Ég hjó sérstaklega eftir því að umtalsverður hluti niðurfærslunnar í hagspá sjóðsins er ekki aðeins til kominn vegna beinna áhrifa tolla, heldur vegna vaxandi óvissu. Það er sérstaklega erfitt að spá fyrir um áhrif þessarar óvissu, því þau geta verið svo ólínuleg; fyrirtæki slá ráðningum og fjárfestingum á frest og það getur myndast vítahringur með mjög snöggum kælingaráhrifum. Jafnvel þótt tollarnir yrðu mildaðir, þá er erfiðara að vinda ofan af þessari óvissu, því það tekur tíma að endurvinna traust fyrirtækja og fjárfesta á stefnumótun bandarískra stjórnvalda.”
Hægt að milda áhrifin
Hafsteinn segir að af allt fari versta veg og bandarískt hagkerfi fari í samdrátt, þá sé líklegt að það smiti út frá sér.
„Bandaríkin eru stærsta hagkerfi veraldar og mikilvægt viðskiptaland fyrir aragrúa annarra ríkja. En það er heilmargt sem önnur ríki geta gert, og ættu að gera, til að milda áhrifin, til dæmis að auka viðskipti sín á milli eða styðja við eftirspurn með öðrum ráðum."
„Við sjáum til dæmis að forysta Evrópusambandsins hefur lagt mikla áherslu á að draga úr íþyngjandi reglugerðum og innri múrum innan EES og mörg Evrópuríki sem hafa svigrúm til lántöku eru að leggja í aukna opinbera fjárfestingu í innviðum og varnarmálum. Þetta eru hlutir sem geta stutt við hagvöxt utan Bandaríkjanna, jafnvel þótt Bandaríkin sjálf lendi í samdrætti. En það er alveg ljóst af spá sjóðsins að hann telur óhjákvæmilegt að tollastríðið og aukin óvissa í alþjóðasamskiptum muni koma niður á hagvexti á heimsvísu.”
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.