Ísland er að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra bílaumboðsins Brimborgar, í kjörstöðu þegar kemur að orkuskiptum í vegasamgöngum. Landsmenn hafi aðgang að miklu magni raforku af endurnýjanlegum uppruna með lágu kolefnisspori á hagstæðu verði. Aftur á móti standi Íslendingar nú á krossgötum og óveðursský hrannist upp yfir orkuskiptunum. Hann segir yfirvofandi verðhækkanir rafbíla vegna ytri aðstæðna og gjaldahækkunar um áramót og úrskurð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar um að allar hleðslustöðvar landsins, þar sem selt er rafmagn eftir magni gegn gjaldi, séu ólögmætar vera helstu ástæður þess.

„Verð rafbíla er að hækka vegna íhlutaskorts á heimsvísu og gengislækkunar krónunnar. Auk þess hafa stjórnvöld boðað vörugjaldahækkun rafbíla við innflutning til viðbótar við lækkun ívilnunar um áramót. Þetta tvennt vinnur beinlínis gegn markmiðum stjórnvalda um orkuskipti.

Þá hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, byggt á áliti raforkueftirlits Orkustofnunar frá 16. maí 2022, úrskurðað allar hleðslustöðvar í landinu, þar sem raforka er seld eftir magni gegn gjaldi án þess að stöðvarnar séu búnar innsigluðum MID-vottuðum raforkumælum, ólögmætar. Í reynd gildir þetta um allar hleðslustöðvar, hvort sem eru í fjöleignarhúsum, á almenningsstæðum eða hraðhleðslustöðvar,“ útskýrir Egill og vísar í úrskurðinn þar sem meðal annars segir:

„Að þessu virtu er niðurstaða HMS sú að það sé andstætt áðurnefndri 18. gr. reglugerðar nr. 1150/2019, sbr. og ákvæðum reglugerðar nr. 1061/2008, ef raforka er seld til neytenda eftir magni á grundvelli niðurstöðu mælitækis sem er ekki MID vottað. […] Stofnunin mun því aðhafast frekar í þessum málum og er nú þegar byrjuð.”

„Ef einhver selur raforku í gegnum rafhleðslustöð eftir magni gegn gjaldi er það ólögmætt ef stöðin hefur ekki tiltekna mæla, sem þó eru ekki einu sinni framleiddir í allar gerðir hleðslustöðva í dag,“ segir Egill, gáttaður á stöðu mála.

Orkuskipti í vegasamgöngum lykilatriði

Egill bendir á að íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig á alþjóðavettvangi til að draga úr kolefnislosun á hverju ári frá árinu 2005 til ársins 2030. Þá nái skuldbindingin jafnframt yfir að árið 2040 verði landið án jarðefnaeldsneytis og algjörlega kolefnishlutlaust. Náist umrædd markmið ekki þýði það umtalsverð fjárútlát á næstu árum fyrir ríkissjóð við kaup á losunarheimildum á alþjóðlegum mörkuðum. Aðeins örfá ár séu til stefnu sem kalli meðal annars á tafarlausar og metnaðarfullar aðgerðir í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs.

„Eins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur bent á í viðtölum við fjölmiðla nýverið liggur okkur mikið á. Samkvæmt niðurstöðu verkefnastjórnar aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum liggja mest tækifæri í samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda í vegasamgöngum. Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfistofnunar nam losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2021 2.807 þúsund tCO2í en til að ná markmiðum samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum þarf að draga úr losun um 1.400 þúsund tCO2í fyrir lok árs 2030. Vegasamgöngur bera ábyrgð á 858 þúsund tCO2í árið 2021, eða 31% af beinni losun Íslands. Því eru hröð orkuskipti í vegasamgöngum lykillinn að því að Ísland nái markmiðum sínum.“

Nánar er rætt við Egil í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun.