Tollaaðgerðir Donalds Trump Bandaríkjaforseta hafa vakið óróa á skuldabréfamarkaði og valdið óvenjulegri þróun: Ávöxtunarkrafa á langtímabréf hefur hækkað þrátt fyrir að krafa á stutt ríkisskuldabréf og ríkisvíxla lækki, í takt við væntingar um vaxtalækkun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna.
Ávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréf hefur hækkað í 4,37% frá byrjun apríl, á sama tíma og ávöxtunarkrafa á styttri bréf hefur lækkað. Fjárfestar krefjast nú hærri ávöxtunar vegna aukinnar óvissu um verðbólgu og efnahagsstefnu stjórnvalda, samkvæmt The Wall Street Journal.
Óstöðug stefna í tollamálum hefur dregið úr trausti fjárfesta til þess að verðbólga og vextir lækki til lengri tíma. Samhliða því óttast margir að sívaxandi útgáfa skuldabréfa, vegna aukins ríkishalla og fyrirhugaðra skattalækkana, muni grafa undan verði langtímabréfa.
„Markaðurinn er að reyna að átta sig á því hvert efnahagsstefnan stefnir,“ segir Tim Ng, sjóðsstjóri hjá Capital Group.
Hærri langtímavextir veikja áhrif vaxtalækkana
Ef ávöxtunarkrafa á langtímabréf helst há þrátt fyrir vaxtalækkanir Seðlabankans getur það grafið undan áhrifum þeirra.
Vaxtakjör neytenda, til dæmis á húsnæðislánum, hafa til að mynda lækkað lítið. Meðalvextir á 30 ára föstum húsnæðislánum voru 6,8% í síðustu viku, hærri en fyrir mánuði.
Seðlabankastjórinn Jerome Powell hefur tekið fram að bankinn ætli sér ekki að flýta vaxtalækkunarferlinu um of, sér í lagi vegna hættu á nýrri verðbólgubylgju.
Fjármálaráðuneytið hefur einnig dregið úr útboðum á langtímaskuldabréfum til að róa markaðinn og halda fjármögnunarkostnaði ríkisins í skefjum.