Tolla­að­gerðir Donalds Trump Bandaríkja­for­seta hafa vakið óróa á skulda­bréfa­markaði og valdið óvenju­legri þróun: Ávöxtunar­krafa á langtíma­bréf hefur hækkað þrátt fyrir að krafa á stutt ríkis­skulda­bréf og ríkis­víxla lækki, í takt við væntingar um vaxtalækkun hjá Seðla­banka Bandaríkjanna.

Ávöxtunar­krafa á 10 ára ríkis­skulda­bréf hefur hækkað í 4,37% frá byrjun apríl, á sama tíma og ávöxtunar­krafa á styttri bréf hefur lækkað. Fjár­festar krefjast nú hærri ávöxtunar vegna aukinnar óvissu um verðbólgu og efna­hags­stefnu stjórn­valda, sam­kvæmt The Wall Street Journal.

Óstöðug stefna í tollamálum hefur dregið úr trausti fjár­festa til þess að verðbólga og vextir lækki til lengri tíma. Sam­hliða því óttast margir að sí­vaxandi út­gáfa skulda­bréfa, vegna aukins ríkis­halla og fyrir­hugaðra skattalækkana, muni grafa undan verði langtíma­bréfa.

„Markaðurinn er að reyna að átta sig á því hvert efna­hags­stefnan stefnir,“ segir Tim Ng, sjóðs­stjóri hjá Capi­tal Group.

Hærri langtíma­vextir veikja áhrif vaxtalækkana

Ef ávöxtunar­krafa á langtíma­bréf helst há þrátt fyrir vaxtalækkanir Seðla­bankans getur það grafið undan áhrifum þeirra.

Vaxta­kjör neyt­enda, til dæmis á húsnæðislánum, hafa til að mynda lækkað lítið. Meðal­vextir á 30 ára föstum húsnæðislánum voru 6,8% í síðustu viku, hærri en fyrir mánuði.

Seðla­banka­stjórinn Jerome Powell hefur tekið fram að bankinn ætli sér ekki að flýta vaxtalækkunar­ferlinu um of, sér í lagi vegna hættu á nýrri verðbólgu­bylgju.

Fjár­málaráðu­neytið hefur einnig dregið úr út­boðum á langtíma­skulda­bréfum til að róa markaðinn og halda fjár­mögnunar­kostnaði ríkisins í skefjum.