Kostnaður við skammtímalán á gulli í Lundúnum hefur rokið upp vegna skorts á gull­forða í helstu við­skipta­miðstöð heims fyrir verðmæta málma.

Gull­flóð til Bandaríkjanna, þar sem gull­birgðir á Co­mex-markaðnum í New York hafa aukist um 88% frá for­seta­kosningunum í nóvember, hefur tæmt markaðinn í Lundúnum.

Fjár­festar eru að reyna að tryggja sér gull áður en hugsan­legir tollar Donalds Trump Bandaríkjafor­seta koma til fram­kvæmda.

Hins vegar eru markaðsaðilar að kvarta yfir töfum við út­tektir úr gull­geymslum Eng­lands­banka en biðin eftir því að geta tekið út gull er komin upp í nokkrar vikur.

Sam­kvæmt Alþjóða­gull­ráðinu (World Gold Council) hefur kostnaður við vikulán á gulli rokið upp í um 10% á árs­grund­velli, saman­borið við 2-3% áður.

„Það er meira gull í Bandaríkjunum en venju­lega, en minna í London en eðli­legt væri,“ segir John Rea­de, aðal­markaðs­fræðingur Alþjóða­gull­ráðsins. „Þetta veldur truflunum á gull­markaðinum og hækkar lántöku­kostnað.“

Lántakar á gulli eru yfir­leitt við­skipta­bankar og aðilar í iðnaði, svo sem gull­bræðslur, skart­gripa­fram­leiðendur eða fram­leiðendur raf­einda­tækja, sem þurfa að nota gull tíma­bundið og kjósa frekar t.d. að leigja það en að kaupa og geyma.

Gull­verð hefur hækkað um meira en 8% það sem af er ári vegna ótta við við­skipta­stríð á heims­vísu og hefur náð mörgum sögu­legum há­marki.

Á þriðju­dag hækkaði það um 1% og náði nýju met­verði, 2.845 Bandaríkja­dölum á hverja troy únsu.

Óstöðugar vaxta­hækkanir á gull­markaði

Vaxtar­stig á leigu fyrir gull hefur náð há­marki í 12% að undan­förnu, sam­kvæmt Philip Newman, fram­kvæmda­stjóra hjá Metals Focus, ráðgjafar­fyrir­tæki á sviði verðmætra málma í London. „Vaxta­stigið er mun hærra en venju­lega og lík­legt að það haldist sveiflu­kennt í ein­hvern tíma,“ sagði Newman.

Áhyggjur af tollum Bandaríkjanna hafa stuðlað að auknum flutningi á gulli til New York, þar sem gull fæst á hærra verði en annars staðar.

Ruth Crowell, fram­kvæmda­stjóri London Bullion Market Association, sem telur meðlimum sínum stærstu banka heims, segir þó að lausa­fjár­staða og gull­birgðir í London séu stöðugar.

„Þótt markaðurinn standi frammi fyrir áskorunum vegna verðmunar milli Bandaríkjanna og Bret­lands, hefur markaðurinn tekist vel á við þær,“ bætti hún við.

Met eftir­spurn eftir gulli

Sam­kvæmt árs­skýrslu Alþjóða­gull­ráðsins náði eftir­spurn eftir gulli meti í fyrra og stefnir í annað met í ár vegna aukinna kaupa seðla­banka og fjár­festa. Heildar­eftir­spurn jókst um 1% í fyrra og nam 4.974 tonnum.

Fjár­festingar­eftir­spurn jókst um 25% þar sem bæði áhugi á gull­stöngum og fjár­festingum í gull­sjóðum sem kaupa beint í málminn jókst.

John Rea­de hjá Alþjóða­gull­ráðinu segir að „for­dæma­laus“ pólitísk og efna­hags­leg áhætta vegna stefnu Trump-stjórnarinnar auki aðdráttar­afl gulls sem öruggs skjóls fyrir fjár­festa.

„Þessi óvissa mun halda gull­verði háu á köflum í ár,“ segir Rea­de, en bætir við að hann búist ekki við sömu hækkun í ár og í fyrra, þegar gull­verð hækkaði um 26%.

Seðla­bankar keyptu 1.045 tonn af gulli í fyrra, sam­bæri­legt við árið á undan, sem markaði þriðja árið í röð þar sem kaup þeirra fóru yfir 1.000 tonn.