Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion banka, segir óverðtryggð lán með föstum vöxtum mun dýrari en þörf er á þar sem íslensk lög skylda alla með íbúðalán til að kaupa sér heimild til uppgreiðslu í formi hærri vaxta.
Þetta skrifar Ólafur í pistli á Linkedin og fylgir þannig eftir fyrri pistli sínum um sama efni þar sem hann sagði gullhúðun íslenskra stjórnvalda sé að valda þessu.
Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa sagt að fyrirkomulagið smitist yfir á skuldabréfamarkað því bankar geti fyrir vikið ekki fjármagnað sig með löngum sértryggðum skuldabréfum á móti fastvaxtaíbúðalánum.
Máli sínu til stuðnings bendir Ólafur á vaxtaferil óverðtryggðra íslenskra ríkisskuldabréfa en eins og sjá má á myndinni er mikill niðurhalli, þ.e. vextir fyrir lengri skuldabréf eru töluvert lægri en fyrir þau styttri.
Samsvarandi feril má sjá á sértryggðum skuldabréfum sem bankar nota helst, ásamt innlánum, til að fjármagna íbúðalán.
„Takmarkanir á uppgreiðsluþóknunum gera það að verkum að á Íslandi eru í raun öll íbúalán stutt í augum lánveitanda. Lán með breytilega vexti hafa enga uppgreiðsluþóknun og lán með fasta vexti hafa það lága uppgreiðsluþóknun að hún veitir litla vörn fyrir lánveitandann. Í raun skyldar þessi lagasetning alla Íslendinga með íbúðalán til að kaupa sér heimild til uppgreiðslu í formi hærri vaxta. En er það örugglega það sem allir vilja?“ spyr Ólafur
„Ég myndi vilja geta boðið óverðtryggð íbúðalán til lengri tíma með föstum vöxtum sem væru langt undir því sem nú býðst. Þessi lán gæfu lántakendum algjörlega fyrirséða greiðslubyrði og niðurgreiðsluferil án óvissu. En það væri ekki ábyrgt af mér að bjóða slík lán þegar óvíst er hvort lánið verði hjá bankanum út lánstímann eða uppgreiðsluþóknunin endurspeglar ekki mögulegt tap bankans ef til uppgreiðslu kemur,“ skrifar Ólafur.
Í fyrri pistli sínum sagði Ólafur að atvinnulífið hafa um margra ára skeið bent á að íslensk stjórnvöld hafi gengið lengra og sett þyngjandi ákvæði umfram lágmarkskröfur sem gerðar eru í EES-gerðum við innleiðingu.
Hann rifjaði þar upp að fyrir tæplega áratug hafi verið sett eitt prósent hámark á uppgreiðslugjöld, í reynd 0,2 til 0,6 prósent fyrir lán með föstum vöxtum til þriggja ára eins og flest þau sem eru í boði nú.
Þá ákváðu íslensk stjórnvöld ekki að fara eftir fordæmum frá útlöndum heldur gengið lengra en víðast hvar í heiminum.
„Svona er þetta stundum með regluverkið. Var þetta ætlunin? Er einhver í stjórnsýslunni að fylgja þessu eftir?“ spyr Ólafur að lokum.