Í skýrslu stjórnar Flugfélagsins Ernis segir að almennur rekstur flugfélagsins hafi gengið ágætlega á síðasta ári en samningur félagsins við Vegagerðina um áætlunarflug til Hafnar í Hornafirði sé undirstaða flugrekstrar Ernis.

Í skýrslu stjórnar Flugfélagsins Ernis segir að almennur rekstur flugfélagsins hafi gengið ágætlega á síðasta ári en samningur félagsins við Vegagerðina um áætlunarflug til Hafnar í Hornafirði sé undirstaða flugrekstrar Ernis.

„Grundvallarforsenda aðkomu þessara nýju fjárfesta var meðal annars sú að framlenging fengist á samning félagsins við Vegagerðina um áframhaldandi flug til Hafnar í Hornafirði,” segir í skýrslu stjórnar. „Það varð þó ljóst í maí mánuði 2023 að ekki yrði framhald þar á og hyggst þessi viðskiptavinur fara í nýtt útboð með þessa þjónustu. Framtíðar rekstrarskilyrði félagsins eru því á þessum tíma óþekkt.”

Nýir eigendur fara yfir reksturinn

Sigurður Bjarni Jónsson, stjórnarformaður flugfélagsins Ernis, segir að staðan sé enn sú að ekki sé búið að framlengja samninginn um flug til Hafnar. Vegagerðin sé með verðkönnun í gangi og staðan muni skýrast á næstu vikum. Hann segir rétt sem komi fram í skýrslu stjórnar að þessi samningur hafi verið grundvallarforsenda fyrir aðkomu nýrra fjárfesta að flugfélaginu. Hins vegar sé það ekki svo að að nýir eigendur muni draga sig tilbaka verði samningurinn ekki endurnýjaður. Ekkert slíkt riftunarákvæði sé til staðar.

Sigurður Bjarni, sem jafnframt hefur verið stjórnarformaður Mýflugs, segir að nýir meirihlutaeigendur Ernis hafi undanfarið verið að fara yfir rekstur félagsins og skoða hvernig megi styrkja hann. Útlit sé fyrir að Mýflug sé að missa samning um sjúkraflug og það setji vissulega strik í reikninginn fyrir það félag. Spurður hvort sameining Ernis og Mýflugs sé á teikniborðinni svarar Sigurður Bjarni því til að svo sé ekki í dag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.