Síminn hf. hagnaðist um 179 milljón krónur á öðrum árs­fjórðungi sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri. Mun það vera lækkun úr 410 milljón króna hagnaði á sama tíma­bili í fyrra.

Tekjur á öðrum árs­fjórðungi námu 6,283 milljörðum króna saman­borið við 6,036 milljarða á sama tíma­bili 2022. Mun það vera um 4,1% aukning milli ára.

„Enn er tekju­vöxtur í kjarna­þjónustu Símans, en tekjur af far­síma, gagna­flutningi og sjón­varps­þjónustu aukast um tæp 9% á fjórðungnum. Vöru­sala búnaðar dregst saman um 17,5%“ segir í upp­gjörinu.

Um 18 milljarðar í eigið fé

Rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir og fjár­magns­liði (EBITDA) nam 1,410 milljörðum króna og eykst því um 11 m.kr. eða 0,8%.

EBITDA hlut­fallið er 22,4% en var 23,2% á sama tíma­bili 2022.

Rekstrar­hagnaður (EBIT) nam 362 milljónum á öðrum árs­fjórðungi saman­borið við 682 milljónir á sama tíma­bili 2022.

Eigin­fjár­hlut­fall Símans var 55,1% í lok fjórðungsins og eigið fé 18,2 milljarðar króna.

Út­lán gegnum veltu­kort okkar njóta einnig heil­brigðs vaxtar og því eru fjár­magns­tekjur Símans að aukast

„Árið 2023 er fyrsta árið sem Síminn starfar sem hrein­ræktað þjónustu­fyrir­tæki, eftir að hafa selt Mílu á síðasta ári. Í kjöl­far slíkra grund­vallar­breytinga er á­nægju­legt að sjá tekjur kjarna­vara okkar vaxa myndar­lega milli ára, þ. e. í Inter­neti, sjón­varpi og far­síma. Aug­lýsinga­tekjur sjón­varps eru dæmi um þá aukningu og á sú þjónusta enn tals­vert inni vegna nýrra mögu­leika sem byrjað er að bjóða aug­lýs­endum upp á. Út­lán gegnum veltu­kort okkar njóta einnig heil­brigðs vaxtar og því eru fjár­magns­tekjur Símans að aukast. Í há­vaxta­um­hverfi dagsins eru fjár­magns­gjöld einnig að aukast, en hóf­leg skuld­setning fé­lagsins kemur til góða við nú­verandi að­stæður. Tekjur af tal­síma halda á­fram sínum fyrir­sjáan­lega sam­drætti og sala búnaðar var auk þess lægri en á sama tíma í fyrra,” segir Orri Hauks­son for­stjóri Símans í upp­gjöri.

Orri segir jafn­framt að í heild hafi EBITDA lítil­lega hækkað á fjórðungnum, þar sem kostnaður óx næstum jafn hratt og tekjur. Laun hækkuðu hratt í takt við launa­þróun í landinu og birgja­samningar eru margir með beina og ó­beina tengingu við al­menna verð­þróun.

„Vegna á­taks í fjár­festingum undan­farið í sjón­varps­efni og tækni, sem hefur stuttan af­skrifta­tíma en mun með ýmsum hætti styrkja reksturinn til lengri tíma litið, eru hraðar af­skriftir á þessu ári. Lang­tíma­upp­bygging 5G kerfa heldur á­fram í sam­starfi við Mílu og gamla tal­síma­kerfið verður lagt af um ára­mót, sem mun spara kostnað á móti lækkandi tekjum í tal­síma,“ segir Orri.

Verk­föll í USA og SKE hafa á­hrif

Orri bendir á að eins og áður hefur verið kynnt hefur staðið til að draga úr fjár­festingum í sjón­varps­efni næstu misserin.

„Um­fangið gæti dregist enn hraðar saman á síðustu mánuðum ársins en gert var ráð fyrir, þar sem stefnir í skort á sjón­varps­efni frá Banda­ríkjunum vegna verk­falla leikara og hand­rits­höfunda. Á móti kemur að ís­lenskt efni verður sterkt í vetur, svo sem leiknar ís­lenskar þátta­raðir og þættir um hljóm­sveitina IceGu­ys. Á­huga­verðir í­þrótta­réttir munu verða boðnir út með haustinu, en fram er komin ný ó­vissa um virði slíkra rétta ef ný­lunda Sam­keppnis­eftir­litsins varðandi laga­lega með­höndlun þeirra fær að standa. Undir öllum kring­um­stæðum er Síminn með á­ætlanir um að bregðast hratt við til að bjóða kröfu­hörðum sjón­varps­áhorf­endum á Ís­landi upp á gæða­efni,“ segir Orri.