Karl Arnar Karlsson, framkvæmdastjóri Loftmynda ehf. gagnrýnir nýafstaðið útboð ríkisins á loftmyndatöku af Íslandi þar sem samið var við erlend fyrirtæki að taka nýjar loftmyndir af Íslandi.

Árið 2019 gáfu Landmælingar Íslands (LMI) út skýrslu þar sem áætlað var að stofnkostnaður við að taka loftmyndir af öllu Íslandi væri 700-750 milljónir og eftir það um 160 milljónir á ári í viðhaldskostnað.

Loftmyndir af öllu Íslandi eru nú þegar til staðar og að sögn Karls ættu það að vera augljósir hagsmunir ríkisins að þurfa ekki að vinna verkefnið aftur.

Karl segir að þau erlendu fyrirtæki sem samið var við muni hafa viðveru hér á landi í allt að þrjá mánuði á ári næstu þrjú árin og á þeim tíma verður reynt að mynda eins mikið og hægt er.

„Kannski verða íslensk sumur næstu árin einstaklega veðursæl en áhættan er mikil og eftirtekjan gæti orðið rýr. Til samanburðar tók það Loftmyndir níu ár að klára þetta verkefni. Núverandi samningur ríkisins við Loftmyndir kostar ríkið minna árlega en bara áætlaður viðhaldskostnaður,“ segir hann.

Karl segir að um gjörólíka hluti sé að ræða. Annars vegar kaup á þjónustu þar sem allt sé innifalið en hins vegar illa ígrundaða óvissuferð á kostnað skattgreiðenda sem enginn veit hvað kemur til með að kosta þegar uppi er staðið.

Sá sparnaður sem kynntur var til sögunnar í kjölfar útboðsins stenst enga skoðun að sögn Karls því enginn viti hversu mörg ár verkið tekur og bráðnauðsynlegum hlutum eins og til dæmis viðhaldi sé sleppt til að koma verkefninu af stað.

„Þegar lögum um LMI var breytt 2015 var ramminn utan um þau verkefni sem stofnunin átti að sinna rýmkaður verulega og gögn LMI voru gerð gjaldfrjáls. Fjármálaráðuneytið sendi þá inn umsögn þar sem settir voru fram ýmsir fyrirvarar vegna lagabreytinganna sem snéru að fjármögnun en þau atriði sem þeir höfðu þá áhyggjur af er einmitt það sem er að gerast núna,“ segir Karl og bætir við að í lögum um LMI sé ákvæði um að gögnin sem stofnunin hýsi eigi að vera ókeypis fyrir alla.