Lars Fruergaard Jørgensen, forstjóri Novo Nordisk, ákvað að tjá sig um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á fjárfestafundi í Danmörku í morgun í tengslum við uppgjör lyfjarisans á þriðja ársfjórðungi.
„Við sjáum hver staðan er núna og ég ætla ekki að fara að staðhæfa hver verður næsti forseti Bandaríkjanna en það lítur út fyrir það verði Trump. Það er enn of snemmt að segja til um hvaða áhrif þetta muni hafa á lyfjaiðnaðinn og fyrirtækið okkar sérstaklega,“ sagði Jørgensen en Børsen greinir frá.
Hann bætti við að hvernig sem færi væri Novo Nordisk alvant að starfa í óstöðugu stjórnmálaumhverfi.
„Við þjónustum markað með mjög sértæka eftirspurn, sem er fólk með króníska sjúkdóma og það er ekkert að breytast. Við höfum alltaf einblínt á að vinna með hverjum sem er, sem semur lögin,“ bætti hann við.
Tekjur Novo Nordisk námu 71,3 milljörðum danskra króna á þriðja ársfjórðungi sem samsvarar um 1423 milljörðum íslenskra króna. Um 21% tekjuvöxt er að ræða frá sama tímabili í fyrra.
Rekstrarhagnaður lyfjarisans var 33,6 milljarðar danskra króna á fjórðungunum sem samsvarar um 670 milljörðum íslenskra króna.