Í dag voru umræður um fjárlög 2023 og breytingar á lögum vegna þeirra á Alþingi.

Arnar Þór Jónsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins var einn af þeim sem lagði orð í belg í þeim umræðum. Hann gagnrýndi stjórnarandstöðuna fyrir að vilja ausa peningum úr ríkissjóði eins og ríkissjóður væri botnlaus. Sama fólk væri síðan að gagnrýna fjármálaráðherra fyrir halla á ríkissjóði.

Hann endaði ræðu sína á þessum orðum.

Ég vil áður en ég fer úr ræðustólnum leyfa mér að vitna í 14 ára son minn, sem er nú greindari en ég, sem sagði við mig í fyrra: Pabbi, það þarf ekki svona mikla peninga í ríkissjóð, það þarf bara að fara betur með peningana. Og ég geri það að minni tillögu hér.

Málamiðlun Sigmundar Davíðs

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins greip ummæli Arnars á lofti og uppskar hlátur meðal þingmanna.

Herra forseti. Ríkisstjórnarflokkarnir leggja hér til allra handa gjaldahækkanir, skattahækkanir jafnvel líka, enda er þessi ríkisstjórn að slá öll met í útgjaldaaukningu ríkissjóðs. Hin stjórnarandstaðan vill hins vegar auka útgjöldin enn þá meira og mæta því með því að hækka skatta og gjöld á enn þá meira. Ég legg til málamiðlun, að menn velti því fyrir sér hvort það kunni ekki að vera ráð að einfaldlega lækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum.

Ég legg svo til að 14 ára sonur hv. þm. Arnars Þórs Jónssonar verði ráðinn efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar.

Hér má horfa á ræðu Sigmundar Davíðs.

Hér má sjá umræðurnar um breytingartillögur á lögum vegna fjárlaganna í heild sinni.