Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur fallist á að fella úr gildi ákvæði sáttar við Ferðaskrifstofu Íslands (FÍ), sem rekur ferðaskrifstofurnar Sumarferðir, Úrval Útsýn og Plúsferðir, sem varðar takmarkanir á samstarfi ferðskrifstofunnar og Icelandair.

Auk þess veitti eftirlitið Pálma Haraldssyni, aðaleiganda FÍ, aukinn frest til að selja 1,6% eignarhlut sinn í Icelandair.

Umrædd sátt var gerð í tengslum við kaup FÍ á rekstri Heimsferða árið 2022. Þann 30. september 2024 barst SKE beiðni frá FÍ um að felld yrðu úr gildi 5. og 6. greinar sáttarinnar sem varða eignatengsl og samstarf FÍ og Icelandair, sem er lýst í ákvörðun eftirlitsins sem helsta keppinaut FÍ bæði á markaði fyrir ferðaskrifstofur og í framleiðslu á flugsætum til og frá Íslandi.

SKE mat það svo að tilefni væri til að endurskoða þau skilyrði sem sett voru en samruninn hafi verið til rannsóknar á miklum óvissutíma í ferðaþjónustu vegna Covid-faraldursins. Frá þeim tíma hafi orðið umtalsverðar breytingar á markaðnum og flugframboði til helstu áfangastaða FÍ.

„Þannig hafa áætlunarflugfélögin Icelandair og Play aukið framboð sitt til þess sem kalla mætti sólaráfangastaða á undanförnum árum á sama tíma og eigin framleiðsla FÍ á flugsætum hefur dregist saman. Á sama tíma hefur hlutdeild sameinaðs fyrirtækis, FÍ og Heimsferða, í sölu á svokölluðum pakkaferðum dregist saman og er frá árinu 2023 orðin lægri en 30%,“ segir í ákvörðun SKE.

Pálmi hyggst selja um leið og viðunandi ávöxtun hefur fengist

Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á markaðnum taldi Samkeppniseftirlitið tilefni til þess að fella úr gildi ákvæði 6. gr. skilyrðanna, sem kveður á um takmarkanir á samstarfi FÍ og Icelandair.

Eftirlitið var hins vegar ekki tilbúið að fella að öllu leyti úr gildi skilyrði um að Pálma beri að selja eignarhlut sinn í Icelandair í ljósi þess að hlutdeild FÍ og Icelandair Vita sé áfram umtalsverð og mun meiri en næstu keppinauta þar á eftir.

SKE féllst þó á að framlengja sölufrestinn. Ekki er tilgreint hversu langan frest Pálmi fær til að selja hlut sinn í Icelandair.

Pálmi Haraldsson, aðaleigandi FÍ með 72,5% hlut, á 1,61% hlut í Icelandair í gegnum Sólvelli ehf. Sólvöllur, sem er ellefti stærsti einstaki hluthafi flugfélagsins, á samtals 663,7 milljónir hluta í Icelandair sem eru um 900 milljónir króna að markaðsvirði í dag.

Í ákvörðuninni kemur fram að FÍ hafi komið þeim sjónarmiðum áleiðis að hlutafjáreign Sólvallar ehf. sé eingöngu í fjárfestingarskyni og að bréfin verði seld um leið og viðunandi ávöxtun hefur fengist. Jafnframt var bent á að gengi bréfa í Icelandair hafi þróast með neikvæðum hætti frá upphaflegu fjárfestingunni.

Pálmi sagði í samtali við FF7, sem hét þá Túristi, þegar SKE heimilaði kaup FÍ á rekstri Heimsferða í apríl 2022, að eftirlitið gerði ráð fyrir að hann mætti eiga hlutabréf í flugfélaginu í allt að þrjú ár til viðbótar.

„Ég er því ekki að fara að selja hlutinn minn núna enda tel ég að Icelandair sé undirverðlagt á markaðnum. Flugfélagið er því góður fjárfestingakostur að mínu mati,“ sagði Pálmi við FF7 í lok apríl 2022.

Gengi hlutabréfa Icelandair var á þeim tíma í kringum 2,0 krónur á hlut en stendur nú í 1,35 krónum.

Hefði ekki komið til framlengingar á sölufrestinum hefði Pálmi aðeins haft nokkra mánuði til að losa um eignarhlut sinn í Icelandair.