Íslenska félagið AI Green Cloud er nú að fullu orðið í eigu móðurfélagsins AI Green Bytes. AI Green Cloud stefnir enn að því að byggja vistvænt gervigreindargagnaver í Ölfusi.

Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að nýtt gervigreindargagnver í Ölfusi yrði ræst á þriðja ársfjórðungi yfirstandandi árs. Kjartan Hrafn Kjartansson, framkvæmdastjóri AI Green Clouds, segir að þar sem móðurfélagið, AI Green Bytes, sé nú að klára stórt verkefni í París muni gagnaverið í Ölfusi líklega tefjast um eitt ár.

AI Green Cloud er nú að fullu í eigu móðurfélagsins AI Green Bytes. Kjartan segir að breytingin á eignarhaldinu hafi fyrst og síðast verið gerð til einföldunar í markaðssetningu. Verkefnið í Ölfusi sé sem fyrr á könnu AI Green Clouds en móðurfélagið, AI Green Byte muni vinna að fjármögnun, sem og koma að rekstri, sölumálum og þjónustu.

Kjartan stofnaði AI Green Cloud síðasta sumar. Hann er tölvunarfræðingur og starfaði um árabil hjá Íslandsbanka. Hann var einn eigenda CoreData, sem Wise keypti fyrir þremur árum og í kjölfarið á þeim viðskiptum vann hann hjá Wise tvö ár eða allt þar til hann stofnaði AI Green Cloud.

Kjartan segir að hönnun gagnaversins í Ölfusi sé í fullum gangi. Nokkuð endanlega mynd sé komin á teikningar og mögulega stækkun gagnaversins í áföngum. Hann segir vinnu við fjárfestingaráætlanir svo gott sem lokið og fjárfestakynningar fyrir fyrstu lotu frumfjármögnunar séu hafnar.

„Það er gríðarlega mikið í gangi og gífurlega mikill áhugi fjárfesta,“ segir Kjartan.

Upphaflega átti að byggja 300 fermetra gagnaver í fyrsta áfanga í Ölfusi en nú er gert ráð fyrir 600 fermetra gagnaveri í fyrsta áfanga.
Upphaflega átti að byggja 300 fermetra gagnaver í fyrsta áfanga í Ölfusi en nú er gert ráð fyrir 600 fermetra gagnaveri í fyrsta áfanga.

Sex milljarða verkefni í Ölfusi

Síðasta haust var gerð hagkvæmnigreining verkefninu í Ölfusi. „Í stuttu máli var niðurstaðan sú að þetta verkefni sé arðbært,“ segir Kjartan. „Næsta skref var því að finna lóð og við erum komin með 3.000 fermetra lóð í Þorlákshöfn. Í fyrsta áfanga byggjum við 600 fermetra hús, sem hægt verður að byggja við að stækka upp í allt að 1.000 fermetra."

„Í fyrsta áfanga þurfum við 300 kílóvött af raforku en fullbyggt mun gervigreindargagnaverið þurfa allt að 8 megavött en það verður ekki fyrr en eftir 5 til 10 ár," segir Kjartan. „Við ætlum að fara rólega af stað og gera þetta skynsamlega. Kostnaður við fyrsta áfangann er á bilinu 5 til 6 milljarðar króna. Við erum búin að útvega okkur orku í fyrsta áfanga. Hún verður keypt í smásölu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.