Jón Gunnar Bergs og María Soffía Gottfreðsdóttir, eigendur Afbragðs ehf. sem hefur rekið Partýbúðina árum saman hefur selt allar sínar atvinnueignir fyrirtækisins til nýrra eigenda.
Fasteignafélagið Bergey og fjárfestingafélagið Tunga, sem eru bæði leidd af Magnúsi Bergi Magnússyni, tóku við Partýbúðinni um mánaðamótin.
Bergey keypti einnig nýlega Austurbæjarbíó af eigendum og mun halda áfram rekstri Bullseye og bíóhússins.
Á Facebook-síðu Jóns Gunnars segist hann líta stoltur um öxl og að reksturinn hafi reynst skemmtileg verferð þar sem bæði fyrirtækin hafi alla tíð stuðlað að ómældri gleði þúsunda viðskiptavina.
„Á leiðinni hefur Partýbúðin tífaldast að stærð og veltu og Austurbær hefur fengið nýtt líf sem heimsins stærsti pílukaststaður sem hýsir m.a. fjölmörg alþjóðleg pílumót. Upphaflegar hugmyndir mínar um Austurbæ voru aðrar, en ég er sannfærður um að húsið á eftir að springa enn frekar út á næstu árum.“
Hann bætir við að margir myndu segja söluna furðulega í ljósi þeirra tækifæra sem blasa við á báðum stöðum en segir ákvörðunina snúast um lífið sjálft frekar en rekstrarsjónarmið. „Ef Guð gefur, verð ég áttræður eftir sautján ár og okkur Maríu langar að njóta þeirra á annan hátt en hinna síðustu sautján.“