Gylfi Magnússon hagfræðiprófessor og formaður bankaráðs Seðlabankans segir yfirsnúning peningaprentvéla helstu seðlabanka heims allt frá hruni – sem svo var gefið enn meira í vegna faraldursins – loks farinn að skila sér í teljandi verðbólgu.
Þessu veltir hann upp í pistli á Facebook nú fyrir stuttu en segir skýringu þess hve langan tíma það tók aukið peningamagnið að skila sér út í verðlag ekki liggja fyrir.
Pistilinn hefur hann á einni af frægustu kennisetningum Miltons heitins Friedman, eins þekktasta en jafnframt umdeildasta hagfræðings 20. aldarinnar, sem staðhæfir að verðbólga sé ávallt og allsstaðar peningalegs eðlis (e. „Inflation is always and everywhere a monetary phenomenon“), í þeim skilningi að aðeins vöxtur peningamagns umfram raunframleiðslu geti orsakað hana.
Orsakirnar viðfangsefni rannsókna og rifrilda næstu árin
Gylfi rifjar upp að þegar peningamálayfirvöld um allan heim hófu að prenta peninga í massavís til að bregðast við hruninu hafi margir vísað í þessi orð og kenningu Friedmans og varað við að aðgerðirnar myndu leiða til verðbólgu. „Það gerðist ekki fyrr en alllöngu síðar en nú virðist verðbólgan komin á fulla ferð.“
Þótt vafalítið muni hagfræðingar liggja yfir og rífast um ástæðurnar næstu árin – eins og Gylfi kemst að orði – nefnir hann það sem eina hugsanlega skýringu að stóraukið magn seðlabankapeninga í umferð hafi lengst af ekki skilað sér í samsvarandi aukningu peningamagns í víðari skilningi.
Peningamagn í víðari skilningi loks farið að aukast
Eftir að steininn tók endanlega úr prentun peninga sem var stóraukin í umfangsmiklum björgunaraðgerðum vegna faraldursins tóku víðari skilgreiningar peningamagns þó loks að hækka af alvöru.
Gylfi nefnir 24% aukningu hins tiltölulega víða mælikvarða peningamagns M3 hér á landi síðustu tvö ár, og fimmtungs- til þriðjungsaukningu á evrusvæðinu og í Bandaríkjunum sem dæmi og klykkir að lokum út með að það sé „alveg í samræmi við áðurnefnda niðurstöðu Friedman að þetta leiði til verðbólgu.“
Seðlabankapeningar samanstanda af seðlum, mynt og innstæðum í Seðlabankanum sjálfum, sem aðeins fjármálastofnanir hafa aðgang að, og magn þeirra kallast M0. Við það bætast svo óbundnar innstæður í fjármálastofnunum fyrir M1, og sífellt víðari skilgreining á borð við bundnar innstæður og auðseljanlegar peningaeignir eftir því sem talan hækkar.