Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika segir aðspurður að eftir á að hyggja hafi peningastefnunefnd verið of bjartsýn í haust þegar seðlabankastjóri lét eftirminnilega hafa eftir sér að bankinn væri að „senda frá sér boltann“ og lét með því í veðri vaka að toppi stýrivaxta væri náð að óbreyttu og nefndin sæi fram á að þurfa ekki að beita sér frekar.
„Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni. Við mátum stöðuna þannig á þeim tíma að við værum mögulega komin nálægt toppnum og töldum miðað við þau gögn sem við höfðum við höndina að þetta væru réttar ákvarðanir, en við erum búin að sjá það núna að við vorum kannski að lesa með of mikilli bjartsýni í þær vísbendingar, þó vissulega hafi margt breyst síðan,“ segir Gunnar og nefnir fasteignamarkaðinn sem dæmi.
„Við vorum svona að búast við að það myndi slakna hraðar á honum í samræmi við það sem við sáum í öðrum löndum,“ segir hann og segist persónulega hafa talið hóflega nafnvaxtalækkun vel mögulega.
Jafnvel þótt nefndin hafi aðeins ákveðið að hækka vexti um 25 punkta í nóvember voru viðbrögðin ansi hörð eins og Gunnar rifjar upp, en samsinnir því að líkast til hefði framsýn leiðsögn bankans getað verið harðari án þess að viðbrögðin hefðu verið mikið meiri.
Nánar er rætt við Gunnar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á fimmtudag.