Verslun Pennans Eymundsson að Laugavegi 77 verður lokað á morgun, föstudaginn 9. maí, klukkan 18, fyrir fullt og allt. Penninn ehf. hefur starfrækt verslun þar frá árinu 2014 en í tilkynningu segir að Penninn muni opna stærri verslun á Selfossi.
Þegar versluninni við Laugaveg verður lokað verður innréttingum og vörum þaðan ekið á Selfoss.
„Leigusamningurinn er runninn út og það stendur til að breyta efri hæðum hússins í íbúðir. Við treystum okkur ekki til að reka verslunina meðan á framkvæmdum stendur,“ segir Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans.
Þá hafa verslanir Pennans Eymundsson við Skólavörðustíg og í Austurstræti verið endurskipulagðar.
„Við erum að opna stærri og glæsilegri verslun á Selfossi á næstu vikum. Búðin á Selfossi verður 350 fermetrar í nýju húsi við Larsenstræti sem er afar öflugt verslunarsvæði,“ segir Ingimar.
Penninn ehf. rekur 16 verslanir um land allt undir nafninu Penninn Eymundsson. Þá rekur félagið húsgagnaverslun, fyrirtækjaþjónustu og heildverslun. Jafnframt rekur Penninn þrjár ferðamannaverslanir undir nafninu The Viking og eina undir nafninu Islandia.
Verslunin Eymundsson var stofnuð 1872 og Penninn 1932. Þær sameinuðust árið 1996 undir einu nafni, Penninn Eymundsson.