Penninn húsgögn og hönnunarfyrirtækið FÓLK Reykjavík hafa undirritað samstarfssamning um sölu og kynningu á vörum FÓLKs á Íslandi.

Markmið samstarfsins er að setja íslenska húsgagnahönnun í forgrunn og stuðla að aukinni vöruþróun og framboði á umhverfisvænum íslenskum húsgögnum í fasteignaverkefnum.

Penninn húsgögn er stærsti söluaðili húsgagna til fyrirtækja og fasteignaverkefna á Íslandi. FÓLK Reykjavík hefur frá árinu 2017 þróað, framleitt og selt íslenska hönnunarvöru og húsgögn, en vörur merkisins eru nú þegar seldar á sjö mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum.

Samstarfið nær ekki eingöngu til núverandi húsgagnalínu FÓLKs heldur einnig framtíðarþróunar, þar sem fyrirtækin hyggjast vinna saman að þróun og kynningu á nýjum íslenskum hönnunarlausnum. Penninn húsgögn greinir sterka aukningu í eftirspurn eftir íslenskri hönnun með áherslu á umhverfisfótspor, og telja báðir aðilar þróunarhluta samstarfsins afar verðmætan.

Penninn húsgögn býr yfir víðtækri þekkingu á þörfum markaðarins, á meðan FÓLK er sérhæft í hönnun, endurnýtingu og framleiðslu. Fyrirtækið vinnur með fjölda hæfileikaríkra íslenskra hönnuða við þróun nútímalegra innanhússlausna, og með þessu samstarfi vilja Penninn húsgögn og FÓLK Reykjavík efla íslenska hönnun og umhverfisvænar lausnir enn frekar.

„Við erum sérlega spennt fyrir samstarfinu við FÓLK og horfum á það til langs tíma. Penninn húsgögn byggir velgengni sína á góðum og sérvöldum samstarfsaðilum og leggur áherslu á gæði fremur en fjölda. Með samstarfinu við FÓLK svörum við aukinni eftirspurn eftir íslenskri og umhverfisvænni hönnun frá arkitektum og fyrirtækjum, sem á góða samlegð með öðrum gæðamerkjum okkar eins og Vitra, Herman Miller, Kinnarps, HAY og fleiri,“ segir Hafþór Hannesson, innkaupastjóri Pennans húsgagna.

„Við erum afar ánægð með samstarfssamninginn við Pennann húsgögn. Það er mikilvægt fyrir okkur að starfa í þéttu samstarfi með okkar söluaðilum. Samstarfið mun gera okkur kleift að setja kraft í þróun á nýrri íslenskri innanhússhönnun sem við getum bæði kynnt með Pennanum á Íslandi og svo í okkar sölukerfi alþjóðlega “ segir Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi FÓLKs.