Penninn ehf., sem selur skrifstofuhúsgögn, skrifstofuvörur, ritföng og afþreyingu undir vörumerkjunum Penninn Eymundsson, Penninn húsgögn og Islandia, hagnaðist um 200 milljónir króna í fyrra.
Mun það vera um 70 milljónum minni hagnaður en á árinu á undan er félagið hagnaðist um 271 milljón árið 2022.
Velta félagsins nam 7,3 milljörðum króna í fyrra sem er hækkun úr 6,5 milljörðum árið áður.
Eignir félagsins voru bókfærðar á 2,8 milljarða króna og var bókfært eigið fé 1,5 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins var 52,1%.
Stjórn félagsins leggur til að hagnaði verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé. Penninn ehf. er í jafnri eigu SDF ráðgjöf ehf. og Vallarbakka ehf.
Tveir hluthafar eiga meira en 10% hlutafjár í SDF ráðgjöf en þeir eru Stefán D. Franklín með 30% hlut og Vilhelmína Þorvarðardóttir með 30% hlut.
Vallarbakkar ehf. er í jafnri eigu Ingimars Jónssonar ehf., sem er í eigu Ingimars forstjóra Pennans og Listakaupa-Ljósaland ehf., sem er í 100% eigu Ólafs Stefáns Sveinssonar.