luthafar hjá Festi höfnuðu tillögu séra Péturs Þor­steins­sonar hjá Óháða söfnuðinum um að breyta nafni félagsins í Sundrungu á hluthafafundi í morgun. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem Pétur óskaði sjálfur eftir því á fundinum við kynningu á tillögu sinni að hún yrði felld.

Í viðtali við Mbl.is um tillöguna í síðustu viku sagðist Pétur, sem „allra minnsti hluthafi félagsins” ekki endilega vera að leggja til að tillagan væri samþykkt. Ástæða tillögunnar væri fremur að vekja athygli á aðferðafræði stjórnar félagsins við upp­sögn Eggerts Þórs Kristó­fers­son­ar, for­stjóra fé­lags­ins.

Eftir að stjórnin gerðist tvísaga um uppsögnina var boðað til stjórnarkjörs hjá félaginu sem fór fram fyrr í dag samhliða tillögu Péturs um nafnabreytinguna. Þar voru þrír nýir stjórnarmenn kjörnir.